2.5.2009

Laugardagur, 02. 05. 09.

Í húskarlahorni Fréttablaðsins í dag víkur stigur@frettabladid.is að þeim orðum mínum hér í gær, að hægferð sé á myndun ríkisstjórnarinnar. Nefnir hann það mér til ámælis vegna þessara orða, að áður hafi tekið langan tíma að mynda ríkisstjórnir, meira að segja þrjár, þar sem ég hef setið.

Fyrir kosningarnar 25. apríl voru málsvarar vinstri-grænna og Samfylkingar með það á vörunum, að fengju flokkar þeirra meirihluta myndu þeir að sjálfsögðu sitja áfram í ríkisstjórn og snúa sér tafarlaust að því að leysa vanda heimila og fyrirtækja. Síðan hafa fleiri en ég beðið þess í ofvæni, að staðið yrði við þessi fyrirheit. Hvað gerist þá? Þingmönnum flokkanna er skipað að fara í þagnarbindinni og hópar skipaðir til að ræða um aðild að ESB og breytingar á stjórnarráðinu!!

Að bera stöðu þjóðarbúsins saman við það, sem var 1995, 1999 eða 2003 er út í hött, þótt stigur@frettabladid telji það hægferð stjórnarflokkanna nú til framdráttar. Einnig ber það í besta falli vankunnáttu á stjórnmálasögunni vitni að halda, að á þessum árum hafi verið haldið á málum við stjórnarmyndun eins og nú er gert. Dagafjöldi segir ekkert um efni þessa máls, þótt svo sé látið í Fréttablaðinu.

Hrannar B. Arnarson, aðstoðarmaður Jóhönnu Sigurðardóttur er gerður út af örkinni í dag með þau boð, að stjórnarsáttmáli sé í smíðum og verkið gangi bara vel.