13.5.2009

Miðvikudagur, 13. 05. 09.

Með ólíkindum er að heyra því lýst yfir af fræðimanni, sem vill væntanlega láta taka sig alvarlega, að fyrir Íslendinga sé tímabært  að „að haga sér eins og fullorðið fólk“ og ganga í Evrópusambandið. Yfirlætið í þessum orðum leynir sér ekki, enda kvartaði Steingrímur J. Sigfússon undan því í sjónvarpsumræðum sunnudaginn 26. apríl, að elíta háskólakennara og fjölmiðlamanna talaði niður til þeirra, sem hefðu efasemdir um ESB-aðild.

Ummælin féllu í Speglinum á RÚV en þar hafa stjórnendur tekið sér fyrir hendur að halda ESB-aðildinni að hlustendum í sama tóni og fram kom í hinum tilvitnuðu orðum. Þessi viðmælandi átti það erindi meðal annars í þáttinn, að gera lítið úr því, að 30 ár tæki Íslendinga að greiða niður skuldir ríkisins á þann veg, að félli að Maastricht-skilyrðum. Mátti helst skilja viðmælanda Spegilsins,  að skilyrðið gilti ekki í reynd auk þess sem þessu mætti haga á ýmsan hátt í þjóðhagsspá,  Hún mótaðist af viðhorfum þeirra, sem gerðu hana.

Hitt er síðan sérstakt íhugunarefni, að Steingrímur J. hefur gleypt sjónarmið ESB-elítunnar til að geta setið áfram í ríkisstjórn og veitt Össuri Skarphéðinssyni opið umboð til að semja við Evrópusambandið.