15.5.2009

Föstudagur, 15. 05. 09.

Veðurblíðan var einstök í Fljótshlíðinni í morgun, logn, sól og hiti. Hefur hlýnað og lægt og má næstum heyra grasið gróa.  Nágrannar mínir líta eftir ánum, en þær hafa enn ekki borið. Uppi til fjalla eru tvær kindur af bústofni mínum. Tókst ekki að ná þeim til byggða í vetur, þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir og eltingarleik.

Á leiðinni til borgarinnar mátti greina umferð, sem benti til þess, að ferðamönnum væri að fjölga.

Ég notaði síðdegið til að búa í haginn fyrir sumarstörfin og útvegaði mér tæki, sem nýtast til sveitastarfa.

Í kvöld sá ég síðustu sýningu Þjóðleikhússins á Hart í bak eftir Jökul Jakobsson, þar sem Gunnar Eyjólfsson leikur skipstjórann. Uppselt hefur verið á allar sýningar og hafa þær orðið mun fleiri en ætlað var í upphafi. Sýningunni var ákaflega vel tekið í kvöld og hylltu leikhúsgestir leikara með því að rísa á fætur og klappa þeim lof í lófa. Hrifningin var ekki síst mikil, þegar Gunnari var fagnað af áhorfendum.