Miðvikudagur, 27. 05. 09.
David Cameron, formaður breska Íhaldsflokksins, boðar breytingar í starfi stjórnmálaflokka og stjórnmálum vegna umrótsins vegna uppljóstrana The Daily Telegraph um misnotkun þingmanna á starfskostnaðargreiðslum.
Hann segir að færa eigi vald til fólksins með tíðari þjóðaratkvæðagreiðslum. Afnema eigi þingrofsvald forsætisráðherrans og taka upp sama kerfi og í Noregi, þar sem þing verður að sitja allt kjörtímabilið. Hann vill halda í einmenningskjördæmi en huga að prófkjörum við val á frambjóðendum, hann hafnar hugmyndum um hlutfallskosningar. Þá vill hann fækka þingmönnum en þeir eru nú 646 í neðri málstofu breska þingsins og 737 í lávarðadeildinni.
Sir Richard Branson, stofnandi Virgin Atlantic flugfélagsins, vill einnig fækka þingmönnum. Hann segir þennan mikla fjölda þeirra hafa átt rétt á sér, þegar menn þurftu að ferðast um landið ríðandi eða í hestvögnum. Nú séu aðrir tímar og auðveldara að eiga samskipti við kjósendur. Með fækkun þingmanna mætti einnig hækka laun þeirra.
Cameron vill ekki aðeins auka áhrif Breta á breska þingið heldur einnig ESB-þingið, en kosið verður til þess í Bretlandi 4. júní og telja flestir að þátttaka í þeim kosningum, sem eru hlutfallskosningar, verði mjög dræm. Cameron sagði í ræðu 26. maí að hann vildi færa valdið:
„Frá ríkinu til borgaranna, frá ríkisstjórninni til þingsins, frá stjórnarráðinu til sveitarfélaganna. Frá Brussel til Bretlands, frá dómurum til fólksins, frá skrifræði til lýðræðis. Með valddreifingu, gegnsæi og ábyrgð verðum við að taka valdið af stjórnmála-elítunni og afhenda það hinum almenna borgara.“