5.5.2009

Þriðjudagur, 05. 05. 09.

Morgunfundur okkar í Noors Slott við Sigtuna í Svíþjóð hófst á því að rætt var um þróun öryggis- og varnarmála á Norðurlöndunum og þar á meðal sjónarmiðin, sem fram koma í Stoltenberg-skýrslunni frá 9. febrúar 2009.

Icelandair-vélin lagði af stað frá Arlanda á réttum tíma eða jafnvel rétt fyrir hann og við vorum þrjá tíma á leiðinni yfir hafið og heim - var lent rétt rúmlega 15.00.

Hafi Ísland þótt illa sett við upphaf fjármálakrísunnar og gert hafi verið mikið úr því, hve undarlega íslenskir bankar höfðu hagað sér, er litið til þess frá öðrum sjónarhóli núna en í upphafi októbers 2008. Vandinn er ekki minni í nágrannalöndunum og bankar þar eiga í meira basli en menn hafa áður kynnst og hið evrópska kerfi er að taka breytingum, þegar ríki verða innhverfari við lausn eigin vanda.

Sé rétt, sem sagt er í fréttum, að stjórnarflokkarnir hafi komið sér saman um að leggja fyrir alþingi tillögu til ályktunar um aðild að Evrópusambandinu, án þess að ríkisstjórnin taki efnislega afstöðu til málsins, er um einstæða uppgjöf í sjálfstæðismáli þjóðarinnar að ræða. Uppgjöf, sem sýnir, að ríkisstjórnin hefur ekki burði til að gæta hagsmuna þjóðarinnar út á við. Uppgjöf, sem fellur að málstað þeirra, sem segja, að Íslendingar eigi að ganga í Evrópusambandið, af því að þeir hafi ekki burði til að stjórna sínum eigin málum.