4.5.2009

Mánudagur, 04. 05. 09.

Flaug klukkan 07.50 til Arlanda við Stokkhólm og ók þaðan í áttina að Sigtuna en í gömlum endurgerðum herragarði Noors Slott, var ráðstefna um norræn öryggismál, þar sem ég flutti erindi um Norðurskautið og pólitíska strauma umhverfis það.

Augljóst er að mikil gerjun er í öryggismálum ekki síður en á öðrum sviðum eftir bankahrunið, auk þess sem breytingar í næsta nágrenni Norðurlanda kalla á umræður um nýjar áherslur og viðbrögð.

Þegar rætt er við norræna nágranna okkar og aðra, veldur mér undrun, hvaða viðhorf þeir hafa um þróun mála á Íslandi í átt að Evrópusambandinu. Með vísan til greinar Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur í Morgunblaðinu 24. apríl um undirbúning aðildarumsóknar í utanríkisráðherratíð hennar og ummæla sérfróðra manna utan lands um, að Ísland hafi verið að þreifa fyrir sér með umsóknartexta gagnvart aðildarlöndum ESB, mætti ætla, að utanríkisráðuneytið hafi unnið að málinu á bakvið tjöldin, án þess að ríkisstjórn, svo að ekki sé minnst á utanríkismálanefnd alþingis, hafi verið upplýst um málið.

Spyrja má, hvort vinstri-grænir viti í raun nákvæmlega, hvernig þetta mál er statt. ESB-blöðin nálgast málið á sinn sérkennilega hátt og leggja ekki neitt út á annan veg en þann, sem þjónar málstað aðildar. Á ruv.is má í dag lesa enn eina furðufréttina um það, sem Olli Rehn, stækkunarstjóri ESB, hefur um málið að segja. Hvers vegna er hann að blanda sér í íslensk innanríkismál á þann veg, að hvetja til umsóknar þvert á íslenska stjórnskipun og stjórnarhætti? Af hverju einbeitir hann sér ekki að því að koma Króatíu í ESB? Til þess hefur hann umboð en ekki gagnvart Íslandi.