6.5.2009

Miðvikudagur, 06. 05. 09.

Pendúll skoðana hefur nú enn á ný sveiflast í þá átt, að fara eigi til viðræðna við Evrópusambandið um aðild. Hins vegar eru hópar þeirra, sem taka afstöðu með og á móti aðild jafnstórir. Þetta kemur fram í könnun á vegum RÚV, sem sagt var frá í dag 61% af þeim, sem svara, vilja aðildarviðræður, 40% taka ekki afstöðu í könnuninni, sem unnin er af Capacent.

Aðildarsinnar fagna og telja stefnuna markaða. Jóhanna Sigurðardóttir segir, að tillaga um aðildarviðræður verði lögð fyrir alþingi. Steingrímur J. Sigfússon segir, að ekki sé samið um nýja stjórn, fyrr en samið hafi verið um allt. Hann telur, að samningar takist. Þýðir það, að vinstri-grænir hafi samþykkt aðildarviðræður?

Okkur er sagt frá því, að Gro Harlem Brundtland, forsætisráðherra Noregs, hafi sent 28 orða umsóknarbréf til Evrópusambandsins snemma á tíunda áratugnum fyrir hönd minnihlutastjórnar Verkamannaflokksins að höfðu samráði við utanríkismálanefnd stórþingsins. Látið er í veðri vaka, að eitthvað svipað kunni að gerast hér, enda hafi ríkisstjórn norska Verkamannaflokksins ekki verið einhuga um umsóknina!

Norðmenn felldu samninginn, sem hafði þennan aðdraganda, í þjóðaratkvæðagreiðslu. Þeir hafa tvisvar fellt samning um aðild að ESB. Núverandi ríkisstjórn Noregs hefur aðild ekki á dagskrá sinni.

Eftir flumbruganginn í stjórnarháttum og stjórnsýslu undir forsæti Jóhönnu Sigurðardóttur eftir 1. febrúar 2009 er allra veðra von í Evrópumálum og líklega vílar Samfylkingin ekki fyrir sér að fara á svig við starfshætti, sem hingað til hefur verið talið, að ættu ráða við meðferð utanríkismála af þessari stærðargráðu. Raunar hefur Ingibjörg Sólrún Gísladóttir sagt frá því í Morgunblaðinu 24. apríl, að hún hafi á bakvið ríkisstjórn og utanríkismálanefnd látið vinna að aðild Íslands að ESB í utanríkisráðuneytinu.