26.1.2005 12:01

Miðvikudagur 26. 01. 05

Klukkan 12. 15 kom Evrópunefndin saman til sín 8. fundar.

Svaraði á þingi fyrirspurn frá Helga Hjörvar, þingmanni Samfylkingarinnar, um öryggislögreglu. Að þessu sinni gat þingfundur hafist án þess að stjórnandstaðan veittist að Halldóri Ásgrímssyni vegna andstöðu hans við Saddam Hussein. Nokkrir samfylkingarmenn tóku til máls vegna fyrirspurnarinnar, þar á meðal Ágúst Ólafur Ágústsson, sem var ómálefnalegur að vanda og heyrðist mér hann uppnefna mig Stóra-Björn, sem sannar enn hve barnalegur hann er í öllum málatilbúnaði sínum, blessaður drengurinn.

Flaug klukkan 16.00 til Egilsstaða en þar tóku þeir Guðmundur Skarphéðinsson og Stefán Friðrik Stefánsson á móti mér og óku mér í blíðskaparveðri til Norðfjarðar. Var ævintýralegt að sjá hinar gífurlegu framkvæmdir, sem eru hafnar við Reyðarfjörð vegna álversins.

Klukkan 20. 00 hófst fundur á Hótel Capitano undir stjórn Magna Kristjánssonar, hóteleiganda og bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, var fundurinn haldinn undir kjörorðinu: Með hækkandi sól og höfðu þar auk mín framsögu Halldór Blöndal og Gunnar I. Birgisson, þingmenn Sjálfstæðisflokksins. Voru líflegar umræður að framsögræðum loknum.

Guðmundur ók okkur Gunnari síðan á hótel Hérað á Egilsstöðum og komum við þangað um miðnætti.