4.1.2005 22:13

Þriðjudagur, 04. 01. 05.

Fyrsti fundur borgarstjórnar á nýju ári var haldinn frá klukkan 14.00 til 18.00.

Við sjálfstæðismenn fluttum þessa tillögu:

"Borgarstjórn Reykjavíkur fer fram á það við stjórn Orkuveitu Reykjavíkur að Innri endurskoðun Reykjavíkurborgar verði falið að gera úttekt á rekstri fjarskiptafyrirtækja Orkuveitu Reykjavíkur frá árinu 1998 þar sem jafnframt verði lagt mat á arðsemi þessara fjárfestinga."

R-listinn svaraði með þessari tillögu, sem hann vildi kalla breytingartillögu, en við töldum nýja tillögu og ég sagði ólögmæta:

"Borgarstjórn Reykjavíkuir felur borgarstjóra að láta gera á fjárfestingum fyrirtækja í opinberri eigu í fjarskiptafyrirtækjum frá árinu 1998 þar sem jafnframt verði leitast við að leggja mat á arðsemi þessara fjárfestinga."

Við sjálfstæðismenn kröfðumst þess af Stefáni Jóni Hafstein, sem sat í fyrsta sinn á forsetastóli í fjarveru Árna Þórs Sigurðssonar, að hann vísaði tillögu R-listans frá eða að minnsta kosti að greidd yrðu atkvæði um tillögu okkar. Hann hafnaði hvoru tveggja. Þá bókuðum við:

"Tillaga borgarfulltrúa R-listans er flutt til að draga athygli frá því hve illa hefur verið staðið að rekstri fjarskiptafyrirtækja á vegum Orkuveitu Reykjavíkur. Tillaga R-listans er óframkvæmanleg og felur borgarstjóra verkefni, sem hann hefur ekkert umboð til að sinna og er hún því í raun markleysa. Við mótmælum harðlega þeirri valdníðslu forseta að synja því að bera okkar lögmætu tillögu upp sérstaklega. Það er dapurt að horfa upp á það, að Stefán Jón Hafstein, forseti borgarstjórnar, skuli halda jafnilla á stjórn síns fyrsta fundar."