10.1.2005 21:53

Mánudagur, 10. 01. 05.

Flaug norður á Akureyri klukkan 14.00.

Hitti Arnbjörgu Sveinsdóttur alþingismann og Guðmund Skarphéðinsson, skipuleggjanda fundaferðar okkar sjálfstæðismanna í Norðaustur kjördæminu, á flugvellinum og fórum við beint í Slippstöðina á Akureyri, þar sem við hittum Gunnar Ragnars stjórnarformann og Guðmund Túliníus framkvæmdastjóra. Fórum um fyrirtækið og kynnumst sérstaklega stórverkefni, sem Slippstöðin er að vinna vegna virkjunar við Kárahnjúka og aðrennslis að túrbínuhúsi Landsvirkjunar og að túrbínunum.

Ókum til Dalvíkur og héldum þar fund klukkan 17.30 undir fundarstjórn Sveinbjörns Steingrímssonar. Lauk fundinum rúmlega 19.00 og ókum við þá til Ólafsfjarðar, þar sem fundur hófst klukkan 20.00 undir fundarstjórn Gunnlaugs Magnússonar. Lauk honum rúmlega 22.00 og var klukkan orðin rúmlega 23.00, þegar við komum að KEA, þar sem ég gisti.