17.1.2005 22:10

Mánudagur, 17. 01. 05

Klukkan 11.00 vorum við Ingimundur komnir í Heilbrigðisstofnunina á Blönduósi en þar tóku þau á móti okkur Sveinfríður Sigurpálsdóttir, Valbjörn Steingrímsson framkvæmdastjóri og Ómar Ragnarsson yfirlæknir og kynntu okkur starfsemi stofnunarinnar.

Klukkan 12.00 þáðum við hádegisverðarboð Bjarna Stefánssonar sýslumanns með Jónu Fanneyju Friðriksdóttur bæjarstjóra og fleiri gestum.

Klukkan 13.30 hlýddum við á kynningu Kristjáns Þorbjörnssonar yfirlögregluþjóns á umferðarannsóknum á vegum lögreglunnar, en rannsóknirnar byggjast á upplýsingum, sem lögreglumenn afla við störf sín.

Klukkan 14.00 var athöfn á sýsluskrifstofunni, þar sem ný endurgerð lögreglustöð var formlega tekin í notkun og lyftuhús við stjórnsýslubygginguna. Samgönguráðherra og þingmenn voru við athöfnina ásamt heimamönnum en embættismenn, sem boðið hafði verið, komust ekki vegna veðurs en Holtavörðuheiði var lokuð þá um morguninn en var opnuð að nýju um hádegisbil.

Klukkan 15.00 héldum við Ingimundur til Hvammstanga, þar sem við hittum sýslumann og yfirlögregluþjón að nýju og tókum húsnæði útibús embættis sýslumanns þar formlega í notkun. Síðan skoðuðum við bókasafnið og aðra starfsemi í því húsi, þar á meðal Forsvar, sem Karl Sigurgeirsson stjórnar.

Héldum var af stað til Reykjavíkur um klukkan 16.30 og fengum gott færi suður Holtavörðuheiði og var ég kominn heim rétt fyrir klukkan 20.00