31.12.2007 16:03

Mánudagur, 31. 12. 07. Gamlársdagur.

Það er vel til fundið og réttmætt hjá fréttastofu Stöðvar 2 að tilnefna fíkniefnalöggæsluna, fíkniefnalögreglu og tollgæslu, mann ársins 2007 fyrir framúrskarandi starf á árinu. Árangur þeirra, sem þessum störfum sinna, vakti þjóðarathygli. Af eigin raun veit ég, að þar er unnið af miklum metnaði. Ég óska fíkniefnalöggæslunni til hamingju með verðskuldaðan heiður. 

Ríkisráðsfundur var á Bessastöðum klukkan 10. 30.

Ég þakka lesendum síðu minnar samfylgdina á árinu.

Þeir hafa fylgst með því helsta, sem á daga mína hefur drifið. Þegar ég lít til baka, er mér efst í huga þakklæti til þeirra, sem læknuðu mig af lungnameini á fyrrihluta ársins. Án atbeina þeirra og hæfileika sæti ég ekki hér í dag.

Undarlegast hefur mér þótt að fylgjast með þeim, sem virðast ekki geta unnt mér neins og leggja á mig fæð opinberlega, án þess að ég hafi hið minnsta gert á þeirra hlut. Ef einhver ætti jafnöfluga lækningu við þeim leiða kvilla þessara manna og við lungnameini mínu, yrði það mér gleðiefni á nýju ári.