19.12.2007 10:04

Miðvikudagur, 19. 12. 07.

Egill Helgason heldur enn í dag áfram að búa til óeirðalögreglu með hjálmum og óeirðabílum á vefsíðu sinni, líklega sér hann fyrir sér bíla, sem notaðir voru í Soweto í Suður-Afríku á sínum tíma. Menn þurfa að búa á eyjan.is til að lifa í þessum heimi.

Hvers vegna skyldi Agli vera svo í nöp við að styrkja löggæslu í landinu með heimild í lögum um, að unnt sé að kalla úr varalið við sérstakar aðstæður? Egill telur fréttir um að erfitt sé að manna hið almenna lögreglulið til marks um, að hugmyndir um varalið séu órar. Stefán Eiríksson, lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu, er á öndverðum meiði við Egil. Varalið er vel til þess fallið að styrkja umgjörð hins almenna lögregluliðs, segir hann í Fréttablaðínu í dag.

Löggæslu þarf einfaldlega að styrkja á öllum sviðum og búa þannig um hnúta, að til þess fáist nægilegt fjármagn. Agli finnst nóg um fjárveitingar til þessara mála. Var hann þó ekki að hrópa á meira lögreglulið á götur Reykjavíkur fyrir nokkrum mánuðum?

Þá fjargviðrast Egill yfir því, að notað sé orðið eftirgrennslan yfir rannsóknir á vegum lögreglu. Orðið er notað í nýrri skýrslu ríkisendurskoðunar um baráttuna gegn fíkniefnum. Þetta er síður en svo nýyrði. Á sínum tíma var til dæmis Agnar Kofoed Hansen, lögreglustjóri í Reykjavík, gerður út af örkinni til að kynna sér eftirgrennslan á vegum lögreglu í öðrum löndum. Af hverju er Egill á móti því, að þetta orð sé notað?

Það er sama, hvar borið er niður, alls staðar er Egill á móti aðgerðum til að efla löggæslu, nema í næsta nágrenni sínu, miðborginni. Hvernig verða menn svona sjálfhverfir? Er það ríkisvarða sjónvarpssettið?

Hans Haraldsson ræðir þessi skrig Egils Helgasonar á síðu sinni.

Klukkan 16.30 bauð Sturla Böðvarsson, forseti alþingis, til athafnar í efri deildar sal þingsins til að fagna útgáfu Handbókar um undirbúning og frágang lagafrumvarpa sem er gefin út af forsætisráðuneyti, dóms- og kirkjumálaráðuneyti og skrifstofu alþingis. Þetta er þörf handbók og ætti að stuðla að betra löggjafarstarfi.