21.12.2007 8:27

Föstudagur, 21. 12. 07.

Klukkan 12.30 verður siglt með stórri ferju frá Helsinki til Tallinn, en þar hefst athöfn klukkan 15.00 í höfninni til að fagna því, að persónueftirliti er lokið þar gagnvart íbúum annarra Schengenríkja, sem koma þar í land. Forsætisráðherrar Eista og Finna flytja ávörp, einnig Barroso, forseti framkvæmdastjórnar ESB, og forsætisráðherra Potrúgal, en Porúgalir fara nú með forsæti innan ESB.

Portúgalir lögðu sig mjög fram um, að þessi stækkun Schengensvæðisins, úr 15 í 24 ríki, gæti orðið í forsætistíð þeirra í ESB. SIS eða Schengen Information System, gagnagrunnur landamæravarða og lögreglu, stækkar mjög við stækkunina og verður SISII, en uppfærsla og breyting á kerfinu hefur tekið lengri tíma en ætlað var og leit út fyrir, að stækkunin mundi tefjast vegna þess. Portúgalir fengu þá heimafyrirtæki til að hanna kerfi SISone4all og hefur það reynst svo vel, að unnt er að nýta það til bráðabirgða, þar til SISII kemur til sögunnar, og til að stækka Schengensvæðið.

Við lögðum af stað með ferju Tallinkline kl. 13.00 frá Helsinki og vorum komin klukkan 15.00 til Tallinn. Sendinefnd Evrópusambandsins undir forustu Barroso hafði tafist á ferð sinni milli landamærastöðva, svo að nokkuð dróst, að við gengum í land í Tallinn og skiptum við um ferju, á meðan við biðum, þar sem sú, sem flutti okkur, sneri strax aftur til Helsinki.

Þegar allir voru komnir á sinn stað gengum við í land og á móti okkur var tekið í landamæraefturliti ferjustöðvarinnar, finnski forsætisráðherrann flutti ræðu og síðan eistneski forsetinn, þá Barroso og loks forsætisráðherra Portúgals. Þjóðsöngur Evrópu - stef úr 9. sinfóníu Beethovens, Óðurinn til gleðinnar - var fluttur auk þess sem eistnesk popphljómsveit lék eitt lag. Síðan var myndataka, móttaka, blaðamannafundur og skoteldar flugu á loft yfir miðborg Tallinn.

Ég hélt af stað fljúgandi frá Tallinn til Kaupmannahafnar klukkan 18.10 og átti að taka flug heim 20.15 en nú stendur hér á skiltum Kastrrup-flugvallar, að brottfor verði ekki fyrr en 22.50.

Fjölmiðlamenn hafa sent mér boð í dag til að forvitnast um rökin fyrir vanhæfi mínu við skipan héraðsdómara á Norðurlandi. Þegar Þorsteinn Davíðsson hætti hjá mér sem aðstoðarmaður gaf ég honum meðmæli og tók þar með skýra afstöðu til hæfi hans og hæfni. Vegna þessa hefðu aðrir umsækjendur getað dregið óhlutdrægni mína í efa.