30.12.2007 18:10

Sunnudagur, 30. 12. 07.

Á mbl.is sagði síðdegis í dag um aðgerðir vegna óveðursins:

„Yfir 320 björgunarsveitarmenn frá björgunarsveitum Slysavarnafélagsins Landsbjargar, auk slökkviliðs og lögreglu, hafa í dag sinnt yfir 220 útköllum um land allt. Ástandið hefur verið verst á höfuðborgarsvæðinu þar sem beiðnir um aðstoð hafa verið um 120 talsins.

Samkvæmt upplýsingum frá Landsbjörgu hefur einnig verið mikið annríki hjá björgunarsveitum á Blönduósi og Hvammstanga þar sem 25 verkefni voru leyst og á Suðurnesjum en þar voru björgunarsveitir kallaðar út 15 sinnum.“

Enn höfum við sem sagt verið minnt á mikilvægi björgunarsveitanna og hinna vösku félaga í þeim. Samhæfingarmiðstöðin við Skógarhlíð var virkjuð í gærkvöldi til að samhæfa aðgerðir vegna viðvarana veðurfræðinga. Miðað við þær kom á óvart, að björgunarmenn þurftu að fara inn á Langjökul til að hjálpa 11 manns, þar af þremur börnum, á 7 jeppum.  

Á ruv.is sagði í dag um klukkan 14.00:

„Fólkið sem hefur setið fast í bílum sínum við Langjökul frá því í gær er komið yfir í bíla björgunarsveitanna og leiðangurinn er nú á leið til byggða. Ferð sveitanna hefur tekið um 8 klukkustundir enda færðin afar slæm og veður afleitt.

Mælst hafa vindhviður sem eru yfir 70 m/sek á leiðinni. Auk sérútbúinna jeppabifreiða eru 3 snjóbílar notaðir í leiðangrinum.“