29.12.2007 15:06

Laugardagur, 29. 12. 07.

Fundur lögreglumanna og yfirstjórnar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í gær hefur enn gefið fjölmiðlum tilefni til að huga að stöðu lögreglunnar og hve mikilvægt er að tryggja henni sem best starfsumhverfi. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu nýtur mikils trausts og virðingar hjá öllum almenningi, ef marka má kannanir.

Vel hefur tekist til við sameiningu löggæslu á höfuðborgarsvæðinu undir öruggri stjórn Stefán Eiríkssonar og hans manna. Fyrsta heila ár sameiningar er að baki og margt gott hefur áunnist. Enn má gera betur eins og fram kom á fundi lögreglumannanna. Á mínu borði er næsta stórverkefni að finna stað fyrir nýja lögreglustöð á höfuðborgarsvæðinu og vinna að því, að hafist verði handa við að reisa hana.

Á ruv.is í dag má lesa:

„Ráðherrar ríkisstjórnarinnar fengu vínkassa í jólagjöf frá Landsbankanum. Jóhanna Sigurðardóttir félagsmálaráðherra telur útilokað að ráðherrar láti slíkt hafa áhrif á ákvarðanatöku sína. Í einhverjum tilvikum séu jólagjafir fyrirtækja mögulega á gráu svæði. Ráðherra hefur ekki opnað gjöfina.

Ráðherrarnir fengu Rioja vín að gjöf frá bankanum, Muga árgang 2003, Seleccion Especial í trékassa. Samkvæmt víntímaritinu Wine Spectator, ber að drekka vínið fyrir 2012 sé það geymt við kjöraðstæður. Vínið fær 85 af 100 í einkunn hjá tímaritinu. Vínið er ekki selt hér á landi en í Bandaríkjunum kostar flaskan jafnvirði 2500 króna.“

Með orðinu „vínkassi“ er gefið til kynna, að um nokkrar flöskur í kassa geti verið að ræða. Rétt hefði verið að orða þetta á þennan veg: vínflösku í trékassa.

Vínið í kassanum verður fréttamanni tilefni rannsóknarblaðamennsku - slíkt frumkvæði mættu fréttamenn sýna oftar og jafnvel af meira tilefni. Með því að nefna ártalið 2012 er fréttamaðurinn líklega að vekja athygli ráðherra á því, að okkur sé óhætt að geyma vínið út kjörtímabilið, svo að við verðum ekki fyrir áhrifum af því í núverandi ríkisstjórn.

Landsbankinn fær óvænta auglýsingu vegna gjafmildi sinnar.

Hinn siðavandi Egill Helgason skilur frétt hljóðvarps ríkisins svo, að um kassa af víni hafi verið að ræða og fyllist vandlætingu, eins og sjá má af þessari færslu á vefsíðu hans:

„Ef ég væri í stjórn Landsbankans myndi ég fara að leita að sökudólgi.

Sá sem sendir ráðherrum í ríkisstjórn kassa af áfengi að gjöf hlýtur að vera algjörlega skyni skroppinn.

Og ráðherrarnir hljóta að senda vínið hið snarasta til baka.

Þeir mega undir engum kringumstæðum þiggja svona gjafir.“

Spyrja má: Hefði Egill orðið jafnreiður, ef hann hefði kynnt sér málið og komist að því, að um eina rauðvínsflösku er að ræða?