14.12.2007 21:45

Föstudagur 14. 12. 07.

Í dag kynnti ég ríkisstjórn skýrslu um víðtækar öryggisráðstafanir á vegum dóms- og kirkjumálaráðuneytis og stofnana þess.

Alþingi lauk í dag störfum fyrir jólaleyfi. Á síðasta þingfundi samþykktum við ný þingskapalög. Sturla Böðvarsson, forseti alþingis, sannfærði þingheim fyrir utan vinstri/græna um að samþykkja þessi lög. Þau eru til mikilla bóta.

Ég sat ekki allan daginn í þinghúsinu. Þeir, sem fylgdust þar með umræðum, sögðu, að Steingrímur J., formaður vinstri grænna, hefði farið langt út fyrir eðlileg mörk í ræðu sinni gegn þingskapafrumvarpinu og forseta þingsins.

Hvers vegna vegnar vinstri/grænum, stærsta stjórnarandstöðuflokknum, svona illa í þinginu? Þeir láta mála sig út í horn. Steingrímur J. á ekki sökina. Sumir segja, að með 9 mönnum sé þingflokkurinn orðinn of stór. Eitt er víst, þetta gengur ekki upp hjá þeim.

Fyrir skömmu las ég í The Financial Times opið bréf eftir Karl Rove, hægri hönd Bush forseta í stjórnmálaátökum, til Babrak Obama, forsetaframbjóðanda meðal demókrata, um leiðina til að sigra frú Hillary Clinton. Meginráðið var: Taktu hana ekki silkihönskum. Hann hefur farið að ráðunum og á nú verulegar sigurlíkur í prófkjörum.

 

EGrein