16.12.2007 9:18

Sunnudagur, 16. 12. 07.

Kammersveit Reykjavíkur hélt jólatónleika sína fyrir fullu húsi í Áskirkju klukkan 16. 00 í dag. Elfa Rún Kristinsdóttir lék einleik á fiðlu í tveimur konsertum eftir Bach, sem ekki hafa áður heyrst hér í þessum búningi. Var henni og kammersveitinni mjög vel tekið.

Í gær vék ég að því í pistli mínum og dagbókinni, hve hvimleitt væri að ræða öryggis- og varnarmál á nótum fáfræði. Nefndi ég Egil Helgason meðal annars til sögunnar. Hann segir meðal annars á vefsíðu sinni í dag:

„Stundum tekst manni ekki alveg að koma því frá sér sem maður vill segja. Í Silfrinu áðan var ég bögglast við að segja að varnarmál væru leiðinleg, flókin, núanseruð. Eða hvað?

Það sem ég vildi í raun segja er að umræða um varnar- og öryggismál fer oft fram á tæknimáli milli fólks sem álitur sig svo sérfrótt um málin að enginn annar hafi í raun rétt til að tjá sig.

Þannig er reynt að sveipa þennan málaflokk dularhjúp torskiljanlegra fræða. Þegar sannleikurinn er sá að þeir sem um varnarmál fjalla eru oft og einatt að maka krókinn, gæta hagsmuna sem þeir hafa sjálfir af aukinni her-, lögreglu og öryggisvæðingu. Svo eru aðrir sem fá þessi mál svo gjörsamlega á peruna að þeim er fyrirmunað að greina aukatriði frá aðalatriðum, sjá skóginn fyrir trjánum.“

Ég horfi ekki á Silfur Egils og veit því ekki til hvers Egill er að vísa. Ef ofangreint er ástæða fáfræði hans um þessi mál eða starfssvið dómsmálaráðuneytisins í samanburði við innanríkisráðuneyti annarra ríkja, þakka ég skýringuna.

Orð Egils geta auðveldlega átt við um hvert annað málefni, sem til umræðu er. Telur hann til dæmis, að hagfræðingar ræði þannig um sitt sérsvið, að allir séu með á nótunum? Lögfræðingar um málefni á sínu sérsviði? Eða bókamenntamenn um áhugamál sín? Ekki er unnt að gera þá kröfu til allra umræðuefna, að þau falli innan ramma spjallþátta í sjónvarpi. Þótt svo sé ekki, er ástæðulaust að bannfæra málaflokkinn eða tala niður til þeirra, sem þekkja til hans.

Vegna orða minna hér í pistli mínum frá því í gær segir Pétur Gunnarsson, sem er ritstjóri á eyjan.is:

„Björn Bjarnason lætur ekkert tækifæri ónotað til þess að stimpla þetta vefrit, rægja og tengja við spuna - hann virðist í einhverri sérstakri pólitískri missjón sem hefur það að markmiði. Væntanlega vonast Björn til þess að með því að ljúga nógu oft festist eitthvað af drullunni við.“

Satt að segja átta ég mig ekki á þessum vanstilltu viðbrögðum. Pétur notaði orð mín til að spinna, líklega til að koma illu af stað milli mín og utanríkisráðherra. Fréttablaðið greip þráðinn og tengdi hann inn á forsíðu sína í dag. Ekki er ágreiningur milli mín og utanríkisráðherra, svo að spunaþráður Péturs slitnaði. Meistarinn situr eftir með sárt henni og kallar mig lygara!

Ég hef verið að velta fyrir mér, hvers vegna þeir Pétur og Egill kalla síðuna sína eyjan.is. Skýringin er líklega sú, að þeir eru að reyna að búa til eigin heim eins og þessi nýjasta færsla Egils um öryggismálin ber með sér:

„Hryðjuverk eru ekki vandamál á Íslandi. Það er engin erlend þjóð sem ógnar okkur. Það er alveg sama hvað verður fabúlerað í hættumatsnefnd – það verður aldrei hægt að komast að annarri niðurstöðu en þessari.

Á sama tíma stendur til að stofna 240 manna varalið lögreglu sem hefði yfir að ráða hjálmum, skjöldum og fjórum sérstökum öryggisbílum. Er þetta til annars en að svala löngun manna sem þrá að fara í lögguleik – svona eins og þegar þeir fengu að elta greyin úr Saving Iceland um borg og bý?“

Kenningin um búnað varaliðs er fengin úr færslu Péturs Gunnarssonar frá því í gær. Hvaða tegund af öryggisbílum, ætli þeir félagar hafi í huga? Egill afskrifar þjóðkirkjuna einn daginn og lögregluna hinn. Ætli það sé ekki best fyrir okkur öll að sitja í ríkisvörðu sjónvarpssetti eða flytja bara á eyjan.is?