Miðvikudagur, 12. 12. 07.
Þegar ég hlustaði á framsöguræðu Guðna Ágústssonar, formanns Framsóknarflokksins, í umræðum utan dagskrár á alþingi í dag um kristni, kirkju og skóla og þrá hans eftir að kynnast sjónarmiðum mínum, undraðist ég, að hann hefði ekki fyrr óskað eftir tíma í þingsalnum til að heyra skoðun mína.
Ég hef ekki talið neina þörf á því að blanda mér í umræður um frumvarp til grunnskólalaga og trúarbragðafræðslu í skólum, vegna þess að skoðanir mínar um mikilvægi þess, að kristin viðhorf njóti sín í skólastarfi liggja fyrir opinberlega. Hins vegar var mér ljúft að árétta skoðun mína í ræðu á þinginu í dag.
Í lok ræðu minnar gat ég þess, að vísbendingar væru um, að hlutur þjóðkirkjunnar minnkaði í samanburði trúfélaga. Síðan 1. desember 1980 fram til 1. desember 2007 hefði landsmönnum fjölgað um 37% en um 18% í þjóðkirkjunni. Þetta er óneitanlega sláandi munur.
Ég var ekki fyrr kominn heim af þingi en hringt var í mig frá sjónvarpi ríkisins og spurt, hvort rétt væri, að ég hefði sagt í viðtali við Mannlíf, að ég mundi hverfa af vettvangi stjórnmála snemma næsta árs. Ég sagðist ekki hafa talað um stjórnmál við neinn á Mannlífi og vissi ekki, hvað um væri að ræða - hitt væri einfaldlega rugl, að ég væri að hætta í stjórnmálum.
Spurningum annarra fjölmiðlamanna um málið svaraði ég á þann veg, að kannski væri þetta enn og aftur óskhyggja eigenda Mannlífs, um að ég hætti stjórnmálaafskiptum. Þetta rímar að minnsta kosti vel við áskorun Jóhannesar Jónssonar í Bónus daginn fyrir þingkosningarnar í vor.
Fyrir skömmu fékk ég tölvubréf frá Mannlífi með fyrirspurn um, hvort ég vildi skýra frá því í tímaritinu, hvað ég myndi gefa Jóhannesi í Bónus í jólagjöf. Ég hafnaði boðinu. Jólagjöf Mannlífs til mín er síðan uppspuni um framtíð mína í stjórnmálum.