10.12.2007 19:16

Mánudagur, 10. 12. 07.

Fór í hádegi í björgunarmiðstöðina við Skógarhlíð og kynnti mér framvindu almannavarnaæfingar vegna fuglaflensu.

Klukkan 13.30 komu aðstandendur 16 daga átaks gegn kynbundnu ofbeldi á minn fund í alþingsihúsinu og afhentu mér lista með nöfnum um 1700 manns, þar sem hvatt er til þess að gerð verði aðgerðaáætlun gegn mansali, en 16 daga átaki í þágu þess málstaðar lauk í dag. Ásamt listanum afhentu þær mér jólakerti og skreytingu til að fagna því, að við félagsmálaráðherra höfum samþykkt, að þessi aðgerðaáætlun verði samin.

Undanfarin misseri hafa mál vegna mansals verið á forræði dóms- og kirkjumálaráðuneytis og hef ég flutt frumvörp á alþingi til að treysta refsilagaheimildir gegn þessum vágesti auk þess sem unnið hefur verið að því að fella íslensk lög að Palermó-samningni SÞ og samningi Evrópuráðsins gegn mansali. Eftir að þessari lagavinnu er lokið flyst forræði mansalsmála innan stjórnarráðsins til félagsmálaráðuneytis, enda er hér ekki aðeins um refsimál að ræða heldur einnig mál, sem krefjast félagslegra úrræða.