Mánudagur, 17. 12. 07.
Þeir eru í skjallbandalagi á netinu Jónas Kristjánsson og Egill Helgason og nú hafa þeir sameinast um þá hugmynd Péturs Gunnarssonar, ritstjóra eyjan.is, að hér eigi að vera fjórir óeirðabílar á vegum óreiðalögreglu undir minni stjórn. Jónas lýsir þessari hugmynd þeirra félaga á þennan veg á vefsíðu sinni í dag:
„Björn Bjarnason dómsmálaráðherra vill koma upp vel vopnaðri óeirðalöggu að erlendri fyrirmynd. Hún á að njóta verndar fjögurra óeirðabíla, eins og við sjáum stundum í sjónvarpi frá útlöndum. Ráðherrann gerir ráð fyrir gjá milli stjórnvalda og borgara. Sem endi með, að stjórnvöld þurfi að verja sig gegn almenningi. Hann hefur fattað, að himinn og haf er milli hans og fólksins í landinu. Telur beztu viðbrögðin felast í að koma upp óeirðalöggu á óeirðabílum. Til að keyra um og sprauta vatni á fólk? Fjörugt verður í landinu, þegar rætast huldar hugsjónir herforingjans Björns Bjarnasonar.“
Ég verð að hryggja þessa áhugamenn um öryggismál með því, að ég hef ekki neina tillögu í þá veru, sem þeir lýsa. Þeir verða líklega að flytja á eyjan.is til að njóta hennar í framkvæmd.
Í nýjasta hefti Þjóðmála rita ég nokkurs konar annál átakanna um OR/REI/GGE undir fyrirsögninni: OR/REI-hneykslið. Þar segi ég, að sexmenningar í borgarstjórnarflokki Sjálfstæðisflokksins séu hinir einu innan borgarstjórnar, sem hafi ekki látið flækja sig í þetta brask með eignir og fjármuni borgarbúa.
Að líkja ákvörðun Landsvirkjunar um að stofna Landsvirkjun Power til að annast verkfræðileg verkefni heima og erlendis við OR/REI-hneykslið er ekki annað en tilraun til að fela hneykslið í orðagjálfri.
Ég skil ekki, að nokkrum detti í hug, að Landsvirkjun hafi verið að auðvelda þeim, sem stóðu að OR/REI að þvo af sér skömmina með því að stofna Landsvirkjun Power. Að halda að ágreiningur sé innan Sjálfstæðisflokksins vegna þess að einhverjir vilji verja OR/REI-hneykslið er fráleitt.