24.12.2007 2:09

Mánudagur, 24. 12. 07. Aðfangadagur.

Gleðileg jól

Gleðileg jól!

Í Fréttablaðinu í dag birtist viðtal Klemensar Ólafs Þrastarsonar við herra Sigurbjörn Einarsson biskup. Þar er meðal annars vikið að stöðu þjóðkirkjunnar og sagt:

„Í gamla daga voru trúfélögin færri og undu sínum hag ágætlega, án þess að rekast hvert á annað.

„Það ríkti fullkominn friður milli Þjóðkirkjunnar og Fríkirknanna í Reykjavík og Hafnarfirði. Það er nýlunda að kirkjan þurfi að þola svæsnar árásir úr þeirri átt,“ segir Sigurbjörn, sem undrast mjög heift þeirra sem standa utan Þjóðkirkjunnar og gagnrýna hana.

„Fólkið kýs að vera ekki í Þjóðkirkjunni og beitir svo sinni meginorku í að rífa hana niður í ræðu og riti.“

Sigurbjörn hafnar því að Þjóðkirkjunni væri fyrir bestu að slíta á hin sérstöku tengsl við ríkisvaldið. Stjórnarskráin kveði ekki einungis á um tengsl ríkis við Þjóðkirkjuna. Ákvæðið um Þjóðkirkjuna hefði aldrei komist inn í stjórnarskrá ef ekki væri í húfi sjálf yfirlýsing ríkisins til kristindómsins.

„Og þetta er ekki ríkisrekið fyrirtæki, fjarri því. Ríkið hefur einfaldlega verið vörslumaður fjármuna kirkjunnar. Nú er þeirri vörslu lokið og ríkið afsalar sér ábyrgð á því með stuðningi sínum við Þjóðkirkjuna.“

Því hefði lítið upp á sig að slíta þessi tengsl fyrir friðarsakir: „Það verður aldrei friður fyrir ólátamönnum.“

Sigurbjörn bíður við stutta stund og horfir fram fyrir sig. Hann kveður Þjóðkirkjuna eiga svo mikinn stuðning meðal almennings, trausta vini og úrvalsstarfsfólk að hún þurfi ekki að óttast þetta óvildarfólk.

„Þjóðkirkjan þarf því ekki að einblína á fyrirbæri sem eru meira og minna óeðlileg,“ segir hann og vísar meðal annars til samtakanna Vantrúar.

„Ég vildi ekki meina neinum að hafa skoðanir en menn verða þó að virða þá lágmarkskröfu að koma fram við aðra af sæmilegri sanngirni og væna menn ekki um óheiðarlegar tilfinningar eða vanþroska eða skort á mannviti. Fólk á ekki að afflytja málstað náungans.““

Ég er sammála þessum orðum herra Sigurbjörns og tel þau falla vel að því, sem ég sagði í pistli mínum í gær.

Vegna þess, sem ég segi í pistli mínum um fjölda þeirra, sem eru kristnir í landinu, en ég tel þá meira en 95%, barst mér athugasemd frá Matthíasi Ásgeirssyni, formanni Vantrúar, þar sem segir meðal annars:

„Þetta er afskaplega ónákvæmt og óheppilegt að þetta sé endurtekið opinberlega, meðal annars á Alþingi. Hið rétta er að 1. des 2006 voru 91,12% í Þjóðkirkjunni og öðrum kristnum söfnuðum. 8.98% ekki í kristnum söfnuðum. Gera má ráð fyrir að hlutfall þeirra sem standa utan kristinna safnaða hafi hækkað miðað við 1. des síðastliðinn.“

Nú er það svo, að ég hef undir höndum tölur um mannfjölda eftir trúfélagi miðað við 1. desember 2007. Samkvæmt þeim tölum eru 2,8% manna utan trúfélaga auk þess eru 0,1% í Baháísamfélagi, 0,4% í Ásatrúarfélagi, 0,1% í Búddistafélagi Íslands, 0,1 í Félagi múslima á Íslandi. Þetta gera 3,5%, sem skrá sig utan trúfélaga eða kristinna safnaða. Undir liðnum önnur trúfélög og ótilgreint eru 6,2%. Fomaður Vantrúar gerir greinilega kröfu um, að allt þetta fólk sé skráð í lið með honum. Ég sé ekki á hverju hann byggir þá kröfu. Ef svo væri, héti liðurinn ekki „önnur trúfélög“ - Vantrú er ekki trúfélag. Einhverju kann að skeika í prósentustigi til eða frá en ég hafna því, að tala mín sé „afskaplega ónákvæm“.

Yfirlit mitt sýnir hvernig mannfjöldi eftir trúfélagi hefur þróast síðan 1980 og þar hefur hlutfallslega fjölgað mest í hópnum, sem heitir: Önnur trúfélög og ótilgreint úr 578 manns 1980 í 19.524 1. des. 2007. Sé litið á tölur þjóðkirkjunnar á sama tíma voru 213.147 í henni 1980 en 252.461 2007.

Af kristnum söfnuðum hefur fjölgunin orðið mest í kaþólsku kirkjunni á þessu tímabili 1.614 1980 en 7.977 árið 2007 og er kaþólski söfnuðurinn samkvæmt þessu orðinn að stærsta söfnuði utan þjóðkirkjunnar. Fríkirkjan í Reykjavík er í þriðja sæti með 7.498 manns (5.777 1980). Athyglisvert er að sjá mikla fjölgun í Fríkirkjunni í Hafnarfirði úr 1.676 1980 í 5.024 2007.