5.12.2007 21:32

Miðvikudagur, 05. 12. 07.

Var með viðtöl fyrir hádegi eins og jafnan á miðvikudögum. Ég glími ekki við neinn biðlistavanda.

Í umræðum um fjárveitingar í stórþinginu sagði einn ræðumanna, að hroðlaegt væri fyrir Norðmenn að búa við biðlista á öllum sviðum, en við hverju öðru væri að búast, þegar sósíalistar, kommúnistar og stalínistar væru við völd - og enn fengist stjórnleysið staðfest með því að meira að segja Ísland ýtti Noregi úr efsta sæti á lífskjaralista SÞ!

Klukkan rúmlega 18.00 svaraði ég tveimur fyrirspurnum á alþingi, frá Álfheiði Ingadóttur og Árna Þór Sigurðssyni, þingmönnum vinstri/grænna.

Álfheiður gerði því skóna, að íslensk stjórnvöld væru að miðla upplýsingum um refsidóma yfir Íslendingum til bandarískra stjórvalda, en það leiddi til þess, að menn fengju ekki að koma inn í Bandaríkin. Í svari mínu sagði ég ekki neitt styðja þessa skoðun.

Mér skildist á Álfheiði, að hún teldi fráleitt, að mönnum væri vísað frá Bandaríkjunum, ef yfirvöld þar teldu sig hafa rök til þess samkvæmt lögum sínum og upplýsingum um viðkomandi.

Schengen-samstarf Evrópuríkja snýst meðal annars um rekstur öflugs gagnagrunns og tenginga í hann úr öllum ytri landamærastöðvum og frá öðrum miðlægum stöðum til unnt sé að kanna þá, sem koma inn á svæðið, meðal annars hvort þeim hafi verið brottvísað af því um lengri eða skemmri tíma vegna afbrota. Skráning í grunninn ræður, hvort viðkomandi er hleypt inn á svæðið eða ekki.

Í því felst nokkur hræsni að láta eins og Bandaríkjamenn séu eitthvað strangari að þessu leyti en Schengen- eða EES-ríkin. Í Leifsstöð eru til dæmis allir skoðaðir, sem koma með flugi frá Bandaríkjunum með vísan til EES-reglna. Mörgum Íslendingum kemur þetta spánskt fyrir sjónir en skoðun á þeim byggist á því, að ekki er sérgangur inn í landið fyrir þá, sem koma frá Bandaríkjunum.