27.12.2007 21:47

Fimmtudagur, 27. 12. 07.

Benazir Bhutto var myrt í Rawalpindi í Pakistan í dag, þegar hún var á leið af kosningafundi. Hún var skotinn í hálsinn af launmorðinga, sem síðan sprengdi sig í loft upp. Aðferðin þótti minna á al Kaida hryðjuverkasamtökin. Jón Ormur Halldórsson sagði hins vegar í fjölmiðlaviðtali frá Berlín, að hann teldi öryggislögreglu Pakistan-stjórnar eiga hlut að morðinu.

Benazir Bhutto var tvisvar forsætisráðherra Pakistans 1988 til 1990, og 1993 til 1996. en varð í bæði skiptin að láta af völdum vegna ásakana um spillingu. Hún var í útlegð í Dubai síðan 1999 með þremur börnum sínum en sneri til Pakistans í október sl. Herstjórn Pakistans veitti henni sakaruppgjöf. Maður hennar sat í fangelsi í átta ár fyrir að draga sér opinbert fé í stjórnartíð konu sinnar. Hann var látinn laus 2004. Faðir hennar, forsætisráðherra Pakistans, var hengdur og annar bróðir hennar var myrtur vegna stjórnmálastarfa hinn fannst látinn í íbúð sinni á frönsku Rivierunni.

Undir herstjórn er allt í báli og brandi í Pakistan. Hvort Bhutto hefði tekist að breyta stjórnarháttum til hins betra er með öllu óvist. Talið er, að hún hefði getað stuðlað að stöðugleika í landinu. Upplausn magnast við dauða hennar. Pakistan er helsta gróðrastía hryðjuverkasamtaka samtímans. Líklegt er að Osama bin Laden leynist þar einhvers staðar.