11.12.2007 23:02

Þriðjudagur 11. 12. 07.

Rut hélt útgáfuteiti í kvöld í tilefni af útgáfu hljómdisks hennar og Richards Simms með sónötum fyrir fiðlu og píanó eftir Sveinbjörn Sveinbjörnsson, Karl Ottó Runólfsson, Jón Nordal og Fjölni Stefánsson.

Ég sé, að Guðmundur Magnússon er hættur á dv.is, eftir að hafa hleypt vefsíðunni af stokkunum. Hann segir síðuna hafa náð miklum lestri á skömmum tíma. Mér finnst einhvern veginn, að það hafi vantað punktinn yfir i-ið á síðunni.

Stjórn þróunarfélagsins, sem annast hefur sölu eigna í Keflavíkurstöðinni, efndi til blaðamannafundar í gær til að svara ásökunum Atla Gíslasonar, þingmanns vinstri/grænna, og fleiri um, að hún hefði staðið illa eða óeðlilega að eignasölunni. Stefán Þórarinsson stjórnarmaður segir í DV í dag um þingmennina Atla Gíslason, Grétar Mar Jónsson, Frjálslynda flokknum, og Bjarna Harðarson Framsóknarflokknum:

„Þetta eru allt nýliðar á þingi, á sínum fyrsta vetri og í stjórnarandstöðu. Þeir hafa ekki verið með nein mál á dagskrá og sumir komið með beyglaða ímynd inn á þingið. Einn þeirra var til dæmis sakaður um að hafa brotið reglur í laxveiðiám og dróst þannig inn í fjölmiðlaumræðuna. Hann er að nýta tækifærið til að fá athygli fjölmiðlanna á annan hátt og það hefur tekist. En hann gerir það á kostnað mannorðs míns. Mér finnst sorglegt ef þingmenn hafa ekki meira fram að færa en þetta."

DV segir að með þessum orðum beini Stefán spjóti sínu sérstaklega að Atla Gíslasyni. Geir H. Haarde forsætisráðherra gerði það einnig, þegar hann svaraði dylgjum Atla í þingræðu með þeim orðum, að ekki væri „maðkur í mysunni", þegar litið væri til starfa þróunarfélagsins.