1.12.2007 14:52

Laugardagur, 01. 12. 07.

Ég sé að álitsgjafar eru að túlka orð mín í dagbókinni í gær um verkaskiptingu milli ráðuneyta vegna leitar í flugvélum á þann veg, að þau endurspegli einhvern pólitískan ágreining. Þetta sýnir mér aðeins enn og aftur, hve illa menn geta farið með staðreyndir í spuna sínum. Ég fjalla meðal annars um spuna og staðreyndir í öryggismálum í pistli mínum í dag.

Ég sagði þetta um verkaskiptinguna í gær, vegna þess að til 1. janúar 2007 fór utanríkisráðuneytið með lögreglu- og tollvald á Keflavíkurflugvelli. Með því að lögreglustjórinn á Suðurnesjum kom til sögunnar 1. janúar hvarf þetta vald úr höndum ráðuneytisins og er nú hjá dóms- og kirkjumálaráðuneyti og fjármálaráðuneyti.

Séra Hjálmar Jónsson dómkirkjuprestur sendi mér eftirfarandi vísu í gærkvöldi eftir Heiðar Karlsson á Húsavík og leyfi ég mér að birta hana hér, þar sem hún snertir umræðuefni dagsins:

Einstaklingshyggja og ágreiningsþörf
oftast á spýtunni hanga.
Björn hann er aðeins við eftirlitsstörf,
Ingibjörg leitar fanga.