25.12.2007 23:12

Þriðjudagur, 25. 12. 07. Jóladagur.

Bókin Himnaríki og helvíti eftir Jón Kalman Stefánsson lætur engan ósnortinn. Honum er einstaklega vel lagið að draga sterkar myndir og mannlýsingar í meitluðum, kjarnyrtum texta.

Í sömu andrá er forvitnilegt að líta á bakvið tjöld höfunda í bók Péturs Blöndals Sköpunarsögur. Hann bregður ekki aðeins ljósi á, hvernig höfundarnir 12, sem hann hittir að máli, skapa verk sín heldur dregur hann einnig fram skaphöfn hvers og heins, þannig að verk þeirra færast nær lesandanum.

Sjónvarpsmyndin eftir Valdimar Leifsson um Jónas Hallgrímsson, sem frumsýnd var í kvöld, brá upp góðri mynd af ævi listaskáldsins góða. Lífsstarf hans og áhrif á Íslandssöguna skipta meira máli en hvar bein hans liggja. Jónasi hefur bæði verið sýndur sá heiður sem skáldi að hvíla í þjóðargrafreitnum á Þingvöllum og að fæðingardagur hans hefur verið helgaður íslenskri tungu. Í sjónvarpsmyndinni var athygli rækilega dregin að hlut hans sem náttúruvísindamanns.