13.12.2007 21:48

Fimmtudagur 13. 12. 07.

Enn gekk óveður yfir suð-vesturland í nótt og enn reyndi á lögreglu og björgunarsveitir til aðstoðar við fólk og við björgun verðmæta. Samhæfingarstöðin við Skógarhlíð var virkjuð til að sem best sýn væri yfir það, sem gerðist. Þaðan er einnig unnt að ferilvakta menn og farartæki fyrir tilstuðlan tetra-fjarskiptakerfisins. Störf björgunarsveita verða aldrei fullþökkuð en á vefsíðu sinni minnir lögreglan á Akranesi enn á, að án björgunarsveitanna væri ekki unnt að bregðast við með þeim hætti, sem gert hefur verið í óveðrunum, svo að ekki sé minnst á önnur hættutilvik. 

Fjárlög ársins 2008 voru samþykkt í langri atkvæðagreiðslu á alþingi í dag. Er með ólíkindum, hvernig þingmenn vinstri/grænna endast til að kveðja sér hljóðs um stórt og smátt í atkvæðagreiðslum af þessu tagi. Nú hafa þeir einangrast á þingi í afstöðu sinni til frumvarps til breytinga á þingskapalögum, sem miðar að því að koma böndum á þingstörfin með strangari kröfum um tímamörk á ræðum. Allir, sem til þekkja, vita, að meiri vinna liggur að baki stuttum og hnitmiðuðum ræðum en löngum orðaflaumi um allt og ekkert, þar sem jafnan er erfitt að greina mun á auka- og aðalatriðum.

Klukkan 14.00 kom starfshópur utanríkisráðherra um hættumat undir formennsku Vals Ingimundarsonar, prófessors í sagnfræði, á fund í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu, þar sem ég greindi frá hinum víðtæku öryggisráðstöfunum, sem gerðar hefðu verið á vegum ráðuneytisins og stofnana þess.

Mér gafst tími til að renna yfir grein í tímaritinu Mannlífi, sem kynnt var í gær með þeim hætti, að ég væri að hverfa frá ráðherrastörfum. Það er alrangt eins og svo margt annað í þessari grein Þórarins Þórarinssonar, ritstjóra Mannlífs. Tilgangur greinarinnar virðist vera að koma illu af stað innan Sjálfstæðisflokksins með vísan til orða fólks, sem hefur ekki kjark til að segja til nafns. Mér finnst með ólíkindum, að það kjósi nafnleyndina af ótta við einhvers konar hefnd frá forystu flokksins - í þessu tilviki byggist nafnleyndin á þeirri einföldu skýringu, að heimildarmennirnir eru ekki að segja satt og vita það sjálfir, ef þeir þekkja eitthvað til innan flokksins.

Tímaritið Þjóðmál - vetur 2007, kom út í dag. Þar þora menn að standa við skoðanir sínar og þurfa ekki að vitna til nafnleysingja til að skýra strauma og stefnur í stjórnmálum. Vísað er til umagnar minnar um bók Guðna Ágústssonar á forsíðu Þjóðmála með orðunum: Guðni á hvítum hesti. Í bókinni kemur fram, að Guðni vill hvítt hross sem flokksmerki framsóknarmanna.