19.11.2016 17:50

Laugardagur 19. 11. 16

Viðtal mitt á ÍNN við Robert G. Loftis, prófessor við Boston University, um brottför varnarliðsins er nú komið á netið og má sjá það hér. Sömu sögu er að segja um þýðingu mína á viðtalinu og er hún hér. Viðtalið var tekið í annarri viku október svo að þess vegna spurði ég hann ekki um kosningasigur Donalds Trumps.

Í dag efndi Reykjavíkurakademían til málþings í Iðnó um fjölmiðlun í almannaþágu. Fjórir háskólakennarar frá útlöndum fluttu upplýsandi erindi um málið. Í lokin vorum við fjögur frá Íslandi sem tókum þátt í pallborðsumræðum. Sjónarhorn málþingsins var stærra en að ná aðeins til ríkisútvarpsins þótt að sjálfsögðu bæri stöðu þess á góma.

Ýmsir kraftar vinna að breytingum á þessu sviði miðlunar. Þeir sem fjalla um þetta mál mega hafa sig alla við til að halda í við tækni- og fjarskiptaþróunina. Fyrir nokkru ræddu menn á ensku um stöðu almannaútvarps, Public Service Broadcasting (PBS) nú heitir þetta Public Service Media (PSM), almannafjölmiðlun. Ný tækni veldur þarna byltingu eins og á öðrum sviðum.

Þegar ég hugaði að orðum mínum í pallborðinu. Kom tvennt í hugann: a) að óhjákvæmilegt væri að ríkið stæði að baki almannaþjónustu á þessu sviði eins og öðrum sem snerta innviði samfélagsins; b) að við ráðstöfun á almannafé til miðlunar hlytu menn að líta til máltækni og fella ætti í einn farveg stuðning við rafræna miðlun og efnisgerð.

Dr. Gauti Sigþórsson, fagstjóri í miðlun við háskólann í Greenwich í London, var meðal ræðumanna. Hann lýsti vel framvindunni, nýjum viðhorfum og tæknibreytingunum, í einu orði: byltingunni. Niðurstaða Gauta kom mér skemmtilega á óvart því að hann taldi að efnismiðlun og tækni félli saman og þess vegna yrði að líta til máltækni í þessu samhengi ekki síst fyrir snjalltæki í höndum ungs fólks, nýrrar kynslóðar.

Dr. Henrik Söndergaard, dósent við Kaupmannahafnarháskóla, lýsti niðurstöðum í skýrslu sem hann tók þátt í að semja um framtíð almannaþjónustu í fjölmiðlum í Danmörku. Danir eru að feta sig inn á nýjar brautir með því að efla sjóð til efnisgerðar til að auðvelda einkaaðilum. Einnig er líklegt að þrengt verði að danska ríkisútvarpinu, DR, við efnisval þess til að skapa einkaaðilum meira svigrúm en þeir hafa nú.

Stundum er augljóst að eitthvað gerist óhjákvæmlega. Verði þetta upphaf að breiðri umræðu um fjölmiðlun í almannaþágu er grunnurinn góður.