13.11.2016 13:50

Sunnudagur 13. 11. 14

Fréttir herma að fulltrúar flokkanna þriggja sem nú vinna að myndun meirihlutastjórnar ætli að funda í allan dag. Það lofar ekki endilega góðu ef hópar manna sitja lengi yfir að semja langan stjórnarsáttmála. Mestu skiptir að forystumenn viðkomandi flokka nái saman. Án samstöðu þeirra er vegferðin vonlaus.

Í þessu sambandi er til dæmis rifjað upp núna í Bandaríkjunum að George W. Bush hét því fyrir kosningarnar 2000 að hann mundi helga sig innanríkismálum næði hann kjöri sem forseti. Hann sigraði og tók við í janúar 2001 en í 11. september það ár var árásin gerð á New York og Washington. Öryggis- og utanríkismálin urðu eftir það mál málanna í stjórnartíð Bush. Stjórnmálamenn verða að bregðast við aðstæðum.

Fyrir kosningar ræddi ég við frambjóðendur Sjálfstæðismanna úr norðvestur, norðaustur, suður- og suðvesturkjördæmum í þætti mínum á ÍNN. Í öllum þessum kjördæmum unnu Sjálfstæðismenn góða sigra. Allir frambjóðendurnir voru sammála um að kjósendur þeirra vildu að áhersla yrði lögð á innviði í víðum skilningi. Þar er bæði um fjárfestingu í mannvirkjum og aukna þjónustu að ræða.

Hvað sem líður ofurháu vaxtastigi Seðlabanka Íslands er ljóst að um heim allan eru vextir lægri nú en nokkru sinni. Að taka lán til arðbærra framkvæmda í innviðum er því hagstæðara nú en jafnan áður. Donald Trump vann sigur sinn í Bandaríkjunum með loforðum um að ráðast í stórtækar innviðaframkvæmdir. Slíkar framkvæmdir eru nauðsynlegar hér og margar þeirra eru mjög arðbærar sé litið til fjölgunar ferðamanna.

Ný ríkisstjórn á Íslandi ætti að líta fram á veginn í þessum efnum án þess að ríkið sjálft sé í ábyrgð eins og á Keflavíkurflugvelli þar sem talað er um 100 milljarða fjárfestingar.  Nú er mjög hagkvæmt að fjárfesta í nýbyggingum við Landspítalann – að slá þeim framkvæmdum á frest væri óðs manns æði.

Ríkið á að losa sig undan ábyrgð á fjárfestingum og rekstri sem er betur kominn í höndum einkaaðila. Leita verður aðstoðar erlendra sérfræðinga við slíka losun því að hvað eftir annað koma hér upp mál vegna sölu eigna ríkisins þar sem grunsemdir vakna um að ekki sé rétt að málum staðið. Móta á nýja meginstefnu í þessum málum við stjórnarmyndun en ekki sitja yfir smíði óskalista eða áformum um að raska því sem vel gengur.