15.11.2016 15:30

Þriðjudagur 15. 11. 16

Uppnámið sem sigur Donalds Trumps í bandarísku forsetakosningunum veldur tekur á sig ýmsar myndir. Þar á meðal má nefna að kennara við framhaldsskóla í San Fransisco var vísað tímabundið frá störfum vegna þess að hann bar saman stefnu Adolfs Hitlers og Donald Trumps. Báðir hefðu lofað að reka útlendinga á brott og að tryggja að lönd þeirra yrðu „mikil að nýju“. 

Foreldri kvartaði undan að þessari aðferð væri beitt við kennslu. Kennarinn, sem hefur kennt við skólann í 40 ár og er sérfræðingur í gyðingaofsóknum Hitlers, var leystur frá störfum 10. nóvember en sneri aftur í skólann 15. nóvember eftir að 35.000 manns höfðu skrifað undir mótmæli við skólastjórnina og lýst aðferð hennar bæði sem „hættulegri og skammarlegri“.

Fyrir nokkrum mánuðum var mér bent á vefsíðuna breitbart.com. Þangað skyldi ég leita upplýsinga um Donald Trump og baráttu hans frekar en á síður vinstrisinnaðra bandarískra fjölmiðla. Síðar varð Steve Bannon, aðalmaðurinn á Breitbart, kosningastjóri Trumps og nú hefur verið tilkynnt að hann verði einskonar hugmyndafræðingur Hvíta hússins eftir að Trump verður húsbóndi þar.

Ákvörðunin um að ráða Bannon til starfa á vegum Trumps í Hvíta húsinu hefur vakið reiði og hneykslun og er hann borinn mörgum sökum. Gamalgrónu áhrifaöflin líta á hann sem outsider sem lýtur ekki lögmálum pólitíska rétttrúnaðarins. 

Bannon hefur marga hildi háð og sýnt framsýni og áræði á mörgum sviðum. Eitt helsta árásarefnið á Bannon og Breitbart News er að þar sé haldið á loft þjóðernisstefnu hvíta mannsins og ýtt undir gyðingahatur.

Málsvarar Bannons og vefsíðunnar segja þetta alrangt. Reiðina í garð Bannons megi rekja til þess hve mikils virði hann var fyrir Trump og þar með kosningasigur hans.

Heitu tilfinningarnar sem ráðning Bannons vekur sýna enn hve margir eiga erfitt með að sætta sig við sigur Trumps. Varðstaða innan Hvíta hússins um hugmyndafræði og kosningasigur sem er ekki síst reistur á loforði um að „hreinsa mýrina“ í Washington mælist að sjálfsögðu illa fyrir hjá þeim sem óttast að verða fórnarlömb „hreinsananna“.