3.11.2016 17:00

Fimmtudagur 03. 11. 16

Stjórnmálamenn sem vita ekki alveg hvernig þeir eiga skýra mál sitt á opinberum vettvangi grípa gjarnan til einhvers sem er óljóst eða í raun óskýrlanlegt.

Forystumenn Viðreisnar og Bjartrar framtíðar (BF) hafa ákveðið að vera samstiga í stjórnarmyndunarviðræðunum og Óttarr Proppé, formaður BF, segir þá sameinast um „ frjálslyndar miðjuáherslur“. Veit einhver hvað það er? Fyrir nokkrum áratugum boðuðu vinstrisinnar eða mið-vinstrisinnar það sem þeir kölluðu „félagshyggju“ án þess að nokkur vissi hvað þar væri á ferð.

Á Eyjunni er sagt frá því að Pawel Bartozek, þingmaður Viðreisnar, hafi verið í útvarpsþættinum Harmageddon á útvarpsstöðinni X-inu fimmtudaginn 3. nóvember og sagt:

„Það hefur líklegast aldrei verið jafn sterkur og fjölmennur hópur á Alþingi Íslendinga af frjálslyndum miðjumönnum. Það er ákveðið tækifæri og okkar ábyrgð að reyna að nýta það. ... Bæði Sjálfstæðisflokkurinn, Framsóknarflokkurinn og VG eru ekki flokkar sem setja kerfisbreytingar í sjávarútvegi og landbúnaði á oddinn, eða Evrópumálum eða myntmálum. ... Ef við [Viðreisn og BF] værum að semja um ríkisstjórn þá væri hún komin. ... Ég er bundinn trúnaði um ýmislegt, ég veit ýmislegt sem er í gangi.“

Það verður ekki sagt að Pawel auðveldi neinum með þessum orðum að átta sig á hvað vakir fyrir „frjálslyndum miðjumönnum“. Það mundi auðvelda skilning á fyrirbærinu ef þessir ágætu menn skilgreindu sig í samanburði við erlenda flokka. Eru þeir til dæmis að velta fyrir sér að taka þátt í alþjóðasamtökum þar sem Framsóknarmenn hafa skipað sér, það er meðal liberala í Evrópu sem ekki eru eins vinstrisinnaðir og liberalar í Bandaríkjunum.

Hér tala frjálslyndir miðjumenn fyrir að þráðurinn í ESB-viðræðunum verði tekinn upp þar sem Össur skildi við hann í janúar 2013. Hvernig sem á málið er litið er það vitlausta hugmyndin í ESB-málinu um þessar mundir. Pólitísk örlög Össurar ættu að verða mönnum víti til varnaðar í því efni, raunar örlög sjálfrar Samfylkingarinnar sem lifði og dó fyrir ESB-málstaðinn. Ætla frjálslyndir miðjumenn virkilega að taka upp fallna ESB-merkið og láta eins og ekkert hafi í skorist þótt þjóðin hafi hafnað merkisberanum í tvennum kosningum?