20.11.2016 10:00

Sunnudagur 20. 11. 16

Laugardaginn 19. nóvember birtist úttekt á vefsíðu Viðskiptablaðsins, vb.is, á skuldastöðu verst settu sveitarfélaga landsins. Þar sagði meðal annars:

„Fjárhagsstaða Reykjavíkurborgar er áhugaverð og þá sérstaklega í því ljósi að borgin rekur stórt orkufyrirtæki — Orkuveitu Reykjavíkur (OR). Heildarskuldir og skuldbindingar borgarinnar námu 301,6 milljörðum króna 1. janúar síðastliðinn. Þetta jafngildir 3,1 milljón króna á hvern borgarbúa, sem náð hefur 16 ára aldri. Skuldir á hvern íbúa eru einungis hærri í tveimur sveitarfélögum, en það eru Reykjanesbær og Fljótsdalshérað.

Í reglugerð er ákvæði, sem heimilar að undanskilja veitu- og orkufyrirtæki við útreikninga á skuldaviðmiði, þess vegna er skuldaviðmið borgarinnar ekki hærra en raun ber vitni. Skuldahlutfallið, þá er staða OR meðal annars tekin með í reikninginn, er hins vegar 210% og er það einungis hærra í Reykjanesbæ og Fljótsdalshéraði. Skuldir borgarsjóðs (A-hluti) nema 80,7 milljörðum króna, sem jafngildir ríflega 800 þúsund krónum á hvern íbúa.“

Það er með nokkrum ólíkindum að ekki skuli kafað meira í fjárhagsstöðu Reykjavíkurborgar í fjölmiðlum í því skyni að upplýsa borgarbúa og alla landsmenn um hvernig í ósköpunum hefur tekist að koma höfuðborginni í þessa ömurlegu skuldastöðu. Reynslan sýnir að ekkert þýðir að ræða málið af alvöru við Dag B. Eggertsson borgarstjóra. Hann er í afneitun gagnvart vandanum og tekur aðeins til við að kvarta undan samskiptum við ríkisvaldið og skilningsleysi þess á þörf borgarinnar fyrir meiri tekjur.

Þegar rætt er við þá sem eiga í samskiptum við Reykjavíkurborg vegna skipulags- og byggingarmála tekur ekki langan tíma að skynja að á því sviði ríkir einhvers konar ógnar- eða frekjustjórn undir forystu Hjálmars Sveinssonar, formanns ráðs borgarstjórnar sem fer með þessi mál.  Arkitektar og verktakar verða að sitja og standa í samræmi við duttlunga Hjálmars. Viðbrögð hans við hvers konar gagnrýni stjórnast af geðþótta og þess vegna kjósa menn að „hafa hann góðan“ frekar en hreyfa andmælum eða stofna til opinberra umræðna um mál sem eiga að vera gegnsæ eðli málsins samkvæmt.

Dagur B. og Hjálmar áttu báðir bakland í Samfylkingunni sem orðin er að engu í borginni. Það má því segja að stuðningsmenn þeirra hafi kosið að greiða atkvæði með fótunum og ganga til liðs við aðra flokka frekar en sýna Samfylkingunni og trúnaðarmönnum hennar traust.

Undir forystu af þessu tagi skella skulda-boðaföllin á Reykjavíkurborg, að Degi B., Hjálmari og félögum takist að ráða við vandann er borin von. Ábyrgð þeirra er mikil sem ætla leiða sama mynstur í landstjórnina.