18.11.2016 17:30

Föstudagur 18. 11. 16

Sumar fréttir af stjórnarmyndunarviðræðum benda til þess að þátttakendur í þeim líti á þær sem samkvæmisleik, tækifæri til að láta ljós sitt skína og hreyfa athugasemdum um aðra án þess að segja neitt hvað fyrir þeim sjálfum vakir. Þetta stafar ef til vill af æfingarleysi þeirra sem hlut eiga að máli og átta sig ekki á ábyrgðinni sem á þeim hvílir, að leggja grunn að starfhæfri stjórn sem geti viðhaldið festunni og stöðugleikanum sem fráfarandi stjórn hefur tekist að skapa.

Furðulegasta fyrirbæri í samkvæmisleiknum er spurningaþátturinn um ESB. Deilt er um hvaða spurningar eigi að leggja fyrir þjóðina til að þóknast þeim sem vilja aðild en þora ekki að lýsa áhuga sínum á henni opinberlega. Að vangaveltur um þetta mál setji jafnmikinn svip á viðræðurnar og af er látið - ESB-málið, er oft nefnt sem þriðja helsta ágreiningsmálið - hlýtur að veikja tiltrú annarra þjóða manna á veruleikamati þeirra sem hlut eiga að máli.

Innan ESB keppast ráðamenn við að lýsa skoðunum sínum í þá veru að tilvistarkreppa ESB sé meiri en nokkru sinni fyrr. Komi ekki frumkvæði frá stjórnendum Þýskalands og Frakklands til bjargar ESB kunni það einfaldlega að liðast í sundur. Frakkar búa sig undir forsetakosningar næsta vor og Þjóðverjar þingkosningar næsta haust. Í forsetakosningunum óttast ríkjandi ráðamenn Frakklands að Marine Le Pen kunni að sigra með óvild í garð ESB að vopni. Síðan boði hún þjóðaratkvæðagreiðslu um úrsögn Frakka.

Brusselmenn vita ekkert hvernig þeir eiga að taka á úrsagnarákvörðun Breta. Í upphafi höfðu þeir í hótunum um mikla hörku, síðan drógu þeir í land í opinberum yfirlýsingum en hótanirnar eru fyrir hendi. Nýtur Brusselvaldið stuðnings allra ríkisstjórna ESB-landanna í mámálatilbúnaðilartilbúnaði sínum gagnvart Bretum? Það veit enginn.

Allir sem líta alvöruaugum til ESB vita að stækkunarviðræður við Íslendingar er svo neðarlega á dagskrá hjá þeim sem yrðu að koma að viðræðum við Íslendinga að þær komast alls ekki á blað, enginn leiðir hugann að þeim nema þeir sem líta á stjórnarmyndun á Íslandi sem samkvæmisleik. Það eitt veikir stöðu viðkomandi stjórnmálaflokka út á við og þar með traust til þjóðarinnar. Þessum leik verður að ljúka. Forystumenn flokkanna verða hafa þrek til að horfast í augu við staðreyndir og ræða mál á þeim grunni.