16.11.2016 11:45

Miðvikudagur 16. 11. 16

Verði Katrín Jakobsdóttir með umboð forseta Íslands til að mynda ríkisstjórn eftir fund sinn með Guðna Th. Jóhannessyni, forseta Íslands, í dag er það, ef rétt er athugað, í fjórða sinn sem flokksformanni svo utarlega á vinstri væng stjórnmálanna er veitt slíkt umboð.

Kristján Eldjárn braut ísinn sumarið 1978 þegar hann veitti Lúðvíki Jósepssyni, formanni Alþýðubandalagsins, umboðið við gagnrýni ýmissa, þar á meðal leiðarahöfundar Morgunblaðsins. Tók Kristján gagnrýninni illa. Morgunblaðið varði afstöðu sína enn í leiðara 13. júní árið 2004 þegar Guðni Th. Jóhannesson vék að blaðinu og afstöðu þess á fundi sagnfræðinga og sagði að Kristján Eldjárn hefði staðið rétt að málum.  Í leiðaranum í júní 2004 sagði meðal annars:

„Það getur verið erfitt fyrir unga sagnfræðinga nútímans að setja sig inn í andrúm kalda stríðsins. Það verða þeir þó að gera til þess að geta lagt hlutlægt mat á mál eins og þetta. Lúðvík Jósepsson, sem var að mörgu leyti vel metinn stjórnmálamaður, ekki sízt meðal fólks í atvinnulífinu, hefði aldrei getað myndað ríkisstjórn á Íslandi á þessum tíma - hvað þá komið fram sem slíkur í samskiptum við Atlantshafsbandalagið og Bandaríkin!“

Nú situr ungi sagnfræðingurinn sem forseti á Bessastöðum og glímir eins og Kristján við að tryggja ríkinu starfhæfa ríkisstjórn. Kristján leit á hlutverk sitt sem formlegt en velti fyrir sér eftir á hvort hann hefði átt að hafa meiri efnisleg afskipti af framvindu mála.   

Um þetta segir Guðni Th. Jóhannesson meðal annars hér:

„Stundum var Kristján full umburðarlyndur í garð þeirra stjórnmálamanna sem höfðu umboð til stjórnarmyndunar. Sömuleiðis hefði hann mátt kveða fastar að orði um þá kosti sem honum sýndist vænlegastir. [...] Eftir stóð sú lofsverða afstaða Kristjáns Eldjárns að reyna ekki að ráða því sjálfur hverjir settust í stjórn og hverjir ekki. Að því leyti var hann svo sannarlega ópólitískur forseti.“

Guðni Th. vill vera ópólitískur forseti en af ofangreindum orðum má þó ráða að hann telji það í verkahring forseta að benda á „vænlegustu“ kosti að eigin mati. Hvað skyldi hann segja um þá við Katrínu?

Eftir að Lúðvík Jósepsson reyndi árangurslaust að mynda stjórn árið 1978 fékk Svavar Gestsson, þáv. formaður Alþýðubandalagsins, umboðið tvisvar sinnum, frá Kristjáni snemma árs 1980 og Vigdísi Finnbogadóttur í maí 1983.