5.11.2016

Lohengrin í Dresden - árshátíð Wagner-félagsins

Flutt í Þingholti laugardag 5. nóvember 2016.

 

Ekki er ráð nema í tíma sé tekið þegar ópera eftir Wagner á í hlut. Þetta á við um ákvörðun okkar Rutar um að fara til Dresden og sjá þar sýningu á Lohengrin sunnudaginn 29. maí. Boðið um miða í Semperóperuna kom frá Selmu Guðmundsdóttur, formanni Wagners-félagsins á Íslandi, átta mánuðum áður 23. september 2015. Hún hafði 16 miða á hendi. Við ákváðum strax að taka tilboðinu og sjáum ekki eftir því.

Úr þessu varð sannkölluð og eftirminnileg menningarferð til Leipzig, Dresden og Berlínar lokadagana í maí og fyrstu dagana í júní.   

Við höfðum ekki komið til austurhluta Þýskalands síðan árið 1994 þegar sjá mátti Austur-Þýskaland rísa úr rústum kommúnismans í bókstaflegri merkingu. Hús eftir hús var endurgert og við blöstu glæsilegar litríkar gamlar byggingar. Nú er endurreisninni lokið í miðborgum Leipzig og Dresden eins og best sést á Frauenkirche í hjarta Dresden. Hún var endurreist, stein fyrir stein, á árunum 1992 til 2005.

*

Gewandhaus-hljómsveitin í Leipzig á rætur aftur til 1743 þegar stofnað var til hljómleika í Gewandahaus, það er húsakynnum vefara í Leipzig. Enn er opið Gewandhaus í Leipzig, glæsilegt tónlistarhús frá 1981 sem stendur andspænis óperhúsinu við Agústusar-torg.

Við fórum á tónleika Gewandhaus-hljómsveitarinnar þar sem Vorblótið eftir Stravinsky var kynnt í löngu máli með tóndæmum og flutt í heild. Lettinn Andris Nelsons, 37 ára, stjórnaði. Á næsta ári verður hann 21. Gewandhauskapellmeister, það er aðalstjórnandi samhliða því að vera aðalstjórnandi Boston Symphony Orcherster.

Tónlistarlífið í Leipzig stendur á gömlum grunni og þangað hafa íslenskir tónlistarmenn sótt menntun, til dæmis tónskáldin Sveinbjörn Sveinbjörnsson, Páll Ísólfsson og Jón Leifs. Nú kennir Elfa Rún Kristinsdóttir á fiðlu í Leipzig Konservatorium sem starfað hefur síðan 1843 og er kennt við stofnanda sinn Felix Mendelshon Bartholdy.

Í Leipzig er nýlegt safn um Jóhann Sebastian Bach. Er þar beitt allri nýjustu tækni við að miðla fróðleik um Jóhann Sebastian og aðra úr Bach fjölskyldunni. Safnið er í húsi andspænis Tómasarkirkjunni og kórskólahúsinu þar sem Jóhann Sebastian og barnmörg fjölskylda hans bjó. Í húsinu sem nú geymir safnið bjó vinafjölskylda Bachs.

Þarna má sjá hluta af orgeli sem Bach skoðaði og úrskurðaði nothæft og orgelbekk sem vitað er að hann notaði á sínum tíma. Þá eru þarna einnig upprunaleg handrit verka Bachs en þau hafa komið í leitirnar allt fram á síðustu ár.

Tómasarkirkjan hefur verið endursmíðuð frá tíma Bachs en minning hans svífur þarna yfir öllu, utan dyra og innan.

Í kirkjunni var flutt verk fyrir orgel, stóran kór og hljómsveit eftir Max Reger, tónskáld frá Leipzig.  Minnst er 100 ára ártíðar hans í ár.

Verkið heitir 100. sálmurinn og tekur um 30 mínútur í flutningi. Stjórnandinn flutti of ítarlegar skýringar í upphafi flutningsins þegar hann lýsti hve erfiðar æfingarnar hefðu verið fyrir háskólakórinn í Leipzig. Kór, organleikara og hljómsveit var fagnað innilega í lok tónleikanna.

*

Í Dresden hlýddum við á orgeltónleika í Frúarkirkjunni og sinfóníutónleika í sal listasafns en í lok apríl 2017 verður endurreisn Kulturpalast í Dresden lokið og þá fær Dresdner Philharmonie langþráðan sal sinn að nýju.

Semperoper var opnuð árið 1841. Tók aðeins þrjú ár að reisa húsið. Salurinn er glæsilegur og heldur vel utan um þá sem þangað koma. Þrjátíu og fimm árum eftir að óperuhúsið í Dresden var opnað var Hringurinn frumsýndur í nýreistu Festspielhaus Bayreuth en Wagner studdist lauslega við teikningar eftir arkitektinn Semper við smíði eigin húss.

Fyrir sýninguna á Lohengrin í sólarhita síðdegis sunnudaginn 29. maí fengum við Íslendingarnir sem gerðum okkur ferð til Dresden til að njóta verksins að skoða óperhúsið baksviðs.

Var það til marks um hve vel Selma hafði skipulagt ferðina að leiðsögumaður beið okkar og opnaði allar dyr þessa mikla húss fyrir okkur og einnig sviðið sjálft.

Þar steig Einar Kristjánsson óperusöngvari sín fyrstu skref árið 1933 þegar hann stundaði nám í Dresden. Hann söng í þrjú ár í Semperoper en ákvað síðan að flytjast til Stuttgart.

Einar B. Pálsson, verkfræðingur og prófessor, stundaði nám í Dresden á árum nafna síns Kristjánssonar og hefur lýst velgengni söngvarans þar, hann hafi flutt til Stuttgart til að takast á við meira krefjandi verkefni.

*

Sýningin sem við sáum hófst klukkan 16.00 og lauk um 20.30. Við sátum á fremsta bekk á þriðju svölum og sáum vel yfir hljómsveitina og mikinn hluta sviðsins en þó ekki nógu langt inn á það til að sjá sjálfan svaninn. Kom sér þá vel að hafa farið baksviðs fyrir sýninguna þar sem við sáum svaninn í návígi, mikið víravirki.

Uppfærsla Christine Mielitz frá 1983, þegar alræði ríkti í Austur-Þýskalandi, er klassísk í öllu tilliti. Hún nær vel utan um verkið, einnig þegar litið er til búninga eða alls sviðsbúnaðar. Allt gekk upp á farsælan hátt.

Ég dæmi ekki flutninginn en leyfi mér að vitna í umsögn eftir reyndan óperufara sem ég fann á netinu, japanska konu sem sá sömu sýningu og við. Hún segir: „Þegar komið var fram í miðjan annan þátt ... og Anna Netrebko hóf að syngja „Euch Lüften, die mein Klagen“ fann þessi margreyndi og dálítið lúni óperugestur að tár fylltu augu sín; tár gleði og þakklætis. Það er langt um liðið síðan einstök fegurð mannsraddar snerti mig svo djúpt.“

Þetta var frumraun Önnu Netrebko sem hetju í verki eftir Wagner og sló hún og aðrir flytjendur svo í gegn að lófatakinu ætlaði aldrei að ljúka. Hef ég ekki orðið vitni að neinu líku þessu í lok listflutnings. Þegar klappað hafði verið og hrópað af hrifningu í 10 mínútur yfirgáfum við salinn.

Christian Thieleman stjórnaði Staatskapelle Dresden. Hann er nú listrænn stjórnandi í Bayreuth og þegar Andris Nelsons sagði sig frá að stjórna Parsifal þar í sumar var orðrómur um að því hefði meðal annars ráðið að Thieleman sat úti í sal og gerði athugasemdir við tök Nelsons á verkinu.

Það er önnur saga sem ekki skal sögð hér.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

.