14.11.2016 15:15

Mánudagur 14. 11. 16

Margir velta fyrir sér úrslitum kosninganna hér á landi. Þar sem Samfylkingin fékk aðeins 0,7% umfram það að falla af þingi (5,7% atkvæða, þrjá þingmenn, enga úr Reykjavík eða suðvesturkjördæmi). Formaður flokksins sagði af sér og framkvæmdastjóri. Flokkurinn er lamaður og hefur ekki einu sinni neina burði til að efna til naflaskoðunar.

Löngum hefur verið litið þannig á að ýmsir af helstu álitsgjöfum ríkisútvarpsins séu hallir undir Samfylkinguna. Þeir hafa nú fengið vettvang til uppgjörs við kosningabaráttuna á hádegisfundi sem Félag stjórnmálafræðinga stendur fyrir, í samstarfi við Stofnun stjórnsýslufræða og stjórnmála við Háskóla Íslands. Í kynningu á fundinum segir:

„Með innlegg í panel verða þau Gunnar Helgi Kristinsson prófessor í stjórnmálafræði, Þórunn Elísabet Bogadóttir aðstoðarritstjóri Kjarnans, Andrés Jónsson almannatengill og framkvæmdastjóri Góðra samskipta og Ólafur Þ. Harðarson prófessor í stjórnmálafræði.  Þau munu fara yfir spurningar á borð við hvað, ef eitthvað, var óvanalegt við þessa kosningabaráttu, hefur fjöldi flokka í framboði áhrif á hvort að vísir að blokkamyndun flokka myndist og hverjum gagnast neikvæð kosningabarátta.“

Skyldi Sjálfstæðisflokkurinn fá sanngjarna umsögn á þessum fundi? Gunnar Helgi kallaði okkur nokkra skrímsladeild flokksins á sínum tíma. Fyrir þessar kosningar hafði Svanur Kristjánsson, prófessor emeritus úr stjórnmáladeildinni í HÍ, fundið aðra skrímsladeild á vegum flokksins eða innan hans. Sé fræðiðkunin að baki þessu uppgjöri í þessum dúr skilar það ekki miklu heldur verður vatn á myllu þeirra sem þola ekki framgang Sjálfstæðisflokksins.

Hótanir og hræðsla eru ekki heppilegir förunautar í stjórnmálum. Nú er Óttari Proppé, formanni Bjartrar framtíðar, bæði hótað og mögnuð upp hræðsla vegna ákvarðana hans um að láta reyna á hvort samningar takist um stjórnarsamstarf við Sjálfstæðisflokkinn.

Undir lok júní 2015 lagði Páll Valur Björnsson, þingmaður Bjartrar framtíðar, til á alþingi að þingfundir hefðust á hópsöng þingmanna. Þá myndu þingmenn íhuga í fimm mínútur í þögn. Skilja verður orð Páls Vals „íhuga“ á þann veg að hann mæli með hugleiðslu í fimm múnútur.

Þessum vinsamlega boðskap hefur Páll Valur gleymt núna. Hann náði að vísu ekki endurkjöri og reiðist vafalaust vegna þess. Þegar viðræður um stjórnarmyndun ber á góma hefur Páll Valur allt á hornum sér gagnvart Sjálfstæðisflokknum. „Það var kosið út af Panamaskjölunum og þar var Bjarni,“ segir Páll Valur. Var það vegna Panamaskjalanna sem Bjarni jók fylgi sitt en Páll Valur datt út af þingi?