2.11.2016 15:30

Miðvikudagur 02. 11. 16

Í dag ræddi ég við dr. Hannes Hólmstein Gissurarson prófessor í þætti mínum á ÍNNum kosningaúrslitin laugardaginn 29. október, stöðuna í stjórnmálunum hér og í Bandaríkjunum þar sem kosið verður þriðjudaginn 8. nóvember.

Að forseti Íslands skuli hafa veitt Bjarna Benediktssyni, formanni Sjálfstæðisflokksins, umboð til stjórnarmyndunar í dag er eðlilegt í ljósi kosningaúrslitanna. Allir sem standi í brú þjóðarskútunnar verða að taka mið af þeim. Sjálfstæðismenn fara með forystu í öllum kjördæmum landsins og vilji menn tryggja öryggi og stöðugleika er óhjákvæmilegt að stærsti stjórnmálaflokkurinn eigi aðild að landstjórninni.

Hér skal engu spáð um niðurstöður viðræðna Bjarna við forystumenn annarra flokka. Þeir eiga eftir að árétta sjónarmið sín og skilyrði til að fá sem mest út úr hugsanlegu stjórnarsamstarfi. Markmið Bjarna er að mynda meirihlutastjórn. Hún krefst samstarfs þriggja flokka sem er kallar á flóknara ferli en ef tveir flokkar gætu myndað meirihluta.

Þriggja flokka stjórn var mynstur níunda áratugarins, verðbólguáratugarins mikla. Gunnar Thoroddsen sat með nokkrum Sjálfstæðismönnum í stjórn með Framsóknarflokki og Alþýðubandalagi 08.02.80 til 26.05.83; Þorsteinn Pálsson, Sjálfstfl., stýrði stjórn með Framsóknarfl. og Alþýðuflokki 08.07.87 til 28.09.88. Stjórnin sprakk í beinni sjónvarpsútsendingu. Steingrímur Hermannsson, Framsóknarfl., stýrði stjórn með Alþýðufl. og Alþýðubandalagi 28.09.88 til 10.09.89. Steingr. Herm. stýrði fjögurra flokka stjórn Framsóknar, Alþýðubl., Alþýðufl. og Borgaraflokksins 10.09.89 til 30.04.91.

Í rúman aldarfjórðung hefur sem sagt verið tveggja flokka ríkisstjórn í landinu. Þá er þarna fyrir ofan eina dæmið um þriggja flokka stjórn með aðild Sjálfstæðisflokksins fyrir utan tvær þriggja flokka stjórnir með aðild hans á fimmta áratugnum: Nýsköpunarstjórnina undir forsæti Ólafs Thors með þátttöku Alþýðuflokksins og Sósíalistaflokksins 21.10.44 til 04.02.47 og Stefaníu undir forsæti Stefáns Jóhanns Stefánssonar Alþýðuflokki með Sjálfstfl. og Framsóknarfl. 04.02.47 til 09.12.49.

Séu dagsetningar og ártöl við þessar margflokka-stjórnir skoðuð sést að engin þeirra hefur setið heilt kjörtímabil. Allt segir þetta sína sögu en er ekki einhlítt. Skoða verður hvert tilvik fyrir sig til að greina hvað olli stjórnarslitum en miðað við að reglan er að tveggja flokka stjórnir sitji allt kjörtímabilið er augljóst að ákveðið los í stjórnmálum fylgir stjórnum þar sem fleiri flokkar en tveir sitja.