7.11.2016 15:15

Mánudagur 07. 11. 16

Rauði krossins sendi á dögunum frá sér skýrslu sem ber heitið Fólkið í skugganum.Þar er sagt að ákveðnir hópar standi höllum fæti í Reykjavík, stærsti einstaki vandinn snúi að húsnæðismálum. Dagur B. Eggertsson borgarstjóri segir húsnæðismál sín hjartans mál. Hann sagði í hádegisfréttum ríkisútvarpsins sunnudaginn 6. nóvember forgangsverkefni að fjölga húsnæðiskostum og að fjölgun félagslegra leiguíbúða yrði hraðari en áður.

Í tilefni af þessum orðum rifjaði Halldór Halldórsson, borgarstjórnaroddviti sjálfstæðismanna, upp stöðnun hefði verið varðandi félagslegar íbúðir í borginni síðan 2010, þann tíma sem Dagur B. Eggertsson hefur verið í meirihluta. Fyrst með Besta flokknum og svo frá 2014 með Pírötum, Bjartri framtíð og Vinstri grænum.

Davíð B. sagði Halldór „bulla. Halldór birti þá eftirfarandi á Facebook mánudaginn 7. nóvember:

„Árið 2010 voru 1.844 félagslegar leiguíbúðir.

Árið 2014 voru 1.817 félagslegar leiguíbúðir – fækkun um 27 íbúðir.

Árið 2015 voru 1.901 félagslegar leiguíbúðir – fjölgun um 84 íbúðir

Árið 2016 voru 1.916 félagslegar leiguíbúðir þann 3. nóvember skv. svari í borgarráði eða fjölgun um 15 íbúðir.

Þetta þýðir að frá 2010 hefur aðeins fjölgað um 72 félagslegar leiguíbúðir eða um 10 á ári á síðustu 7 árum. Stefnan var að fjölga um 100 á ári. Hefði það verið gert væru 2.544 félagslegar leiguíbúðir núna en ekki 1.916.

Á milli áranna 2015 og 2016 hefur þeim fjölgað um 15% sem eru á biðlista eftir félagslegri leiguíbúð. Í dag eru 844 einstaklingar á þeim lista. Það er væntanlega ekki erfitt að standa við þau orð sem borgarstjóri lét falla í viðtalinu að fjölgun félagslegra leiguíbúða verði hraðari en áður. En frá 2010 hefur ekki verið staðið við neitt í þessum málum.

Svo segir borgarstjóri mig bulla. Bullið er alfarið í boði borgarstjóra í þessum húsnæðismálum.“

Af þessu er augljóst að Dagur B. reyndi að slá sig til riddara á kostnað Halldórs Halldórssonar. Í lýsingu borgarstjóra á eigin ágæti og meirihlutans að baki honum er holur hljómur. Lýsingin einkennist af yfirlæti Samfylkingarinnar, yfirlætinu sem var hafnað í þingkosningunum.