6.11.2016 13:30

Sunnudagur 06. 11. 16

 

Áskriftartilboðin sem manni berast frá erlendum blöðum í netheimum taka á sig nýjar myndir. Nú fara æ fleiri blöð þá leið að bjóða svonefnda premium áskrift. Nýti maður sér hana má komast lengra inn á vefsíðu viðkomandi miðils. Þá er nú í boði hjá bresku síðunni telegraph.co.uk fyrir premium-áskrifendur að fá ársáskrift að The Washington Post í kaupbæti.

Á tíma mikilla tíðinda eins og forsetakosninga í Bandaríkjunum verða oft breytingar á miðlun frétta. Eigendur fjölmiðla leitast við að nýta sér fréttnæma viðburðinn til að ná til nýrra viðskiptavina. Þetta gerist núna. Hefðbundin dagblöð verða að fjölga miðlunarleiðum sínum til að ná til fleiri lesenda og þar með treysta stöðu sína á auglýsingamarkaði.

Frásagnir í netheimum eru oft langar og ítarlegar með miklu af myndum og innskotum lifandi mynda úr öðrum miðlum eða bútum sem teknir eru af Twitter eða öðrum samfélagsmiðlum. Þá er einnig algengt að fylgst sé stöðugt með viðburði og fréttum af honum miðlað stig af stigi eftir því sem sem framvindan er.

Við höfum áhyggjur af framtíð íslenskunnar í rafrænu umhverfi. Brýnt er að fylgja skipulega fram tillögum um tungutækni til að halda í við þróunina á því sviði. Þá er ekki síður ástæða til að hafa áhyggjur af stöðu íslenskra fjölmiðla á þessu mikla breytingaskeiði. Til þessa hefur þeim tekist að halda í við tækniframfarir en eftir því sem þær verða örari er brýnna en ella að hafa burði til að laga fjölmiðlunina að tæknilega umhverfinu. Fjárhagslegir burðir allra íslkenskra fjölmiðla eru litlir.

Ég hef ekki orðið var við að hér sé boðin þjónusta við áskrifendur á netinu á borð við það sem fellur undir premium hjá erlendum miðlum. Áherslan á betra efni í netheimum endurspeglar breytingar á ritstjórnum viðkomandi miðla. Þær geta oft verið sársáukaflullar, einkum þar sem smákóngaveldi hefur festst í sessi.

Wagner-félagið á Íslandi hélt árshátíð sína í gærkvöldi. Þar flutti ég stutta frásögn af ferð til að sjá sýningu á Lohengrin í Dresden 29. maí 2016. Frásögnina má lesa hér.