1.11.2016 13:30

Þriðjudagur 01. 11. 16

Það var einkennilegur misskilningur sem hófst eftir að Sigurður Ingi Jóhannsson forsætisráðherra sagði á kosninganóttina að hann mundi daginn eftir fara á Bessastaði og afhenda forseta Íslands „umboðið“. Sigurður Ingi hafði ekkert umboð heldur hafði hann skipun í embætti forsætisráðherra og erindi hans til Bessastaða var að biðjast lausnar fyrir sig og ráðuneyti sitt.

Þegar Sigurður Ingi tók við embætti forsætisráðherra í byrjun apríl 2016 hafði hann ekki fengið neitt umboð frá forseta Íslands til þess heldur var um sameiginlega ákvörðun þingflokka Framsóknarmanna og Sjálfstæðismanna að ræða. Framsóknarþingmenn höfðu hafnað Sigmundi Davíð og ákveðið var að Sigurður Ingi tæki við af honum. Þetta þótti Guðna Th. Jóhannessyni, þáv. fréttaskýranda ríkisútvarpsins, ólíklegt að mundi gerast, sjálfstæðismenn myndu ekki sætta sig við slíka breytingu. Hún varð, reyndist farsæl þótt hún dygði framsóknarmönnum ekki til að afla nægilegs fylgis í kosningabaráttunni til að stjórnin sæti áfram.

Spurning er hvort nauðsynlegt var fyrir Sigurð Inga að biðjast lausnar strax daginn eftir kosningar. Hann hefði getað setið áfram á meðan kannað væri hvort þriðji flokkurinn vildi slást í för með Framsóknarmönnum og Sjálfstæðismönnum. Lausnarbeiðnin liggur fyrir og klukkunni verður ekki snúið til baka.

Forseti Íslands hefur ekki komist að niðurstöðu um ráðstöfun á „umboðinu“ þegar þetta er skrifað. Því má velta fyrir sér hvers vegna hann ákvað ekki strax á sunnudaginn að fela einhverjum flokksformanni að leita fyrir sér um stjórnarmyndun og gefa sér skýrslu um gang málsins fyrir einhvern ákveðinn dag. Það hefði einfaldað ferlið. Í stað þess ákvað forseti að efna til funda með fulltrúum flokkanna sjö, taka sér umhugsunarfrest og kalla þá síðan fyrir sig að nýju séu fréttir réttar.

Þessi aðferð forsetans kitlar ef til vill hégómagirnd einhverra stjórnmálamanna en ýtir frekar undir sundrungu meðal þeirra en sameinar þá. Þeir eru knúnir til að gefa yfirlýsingar á leið sinni frá Bessastöðum, sumir nota tækifærið til að árétta eigið ágæti en aðrir til að viðra hugmyndir eins og um fimm flokka stjórn eða minnihlutastjórn á ábyrgð Pírata. Vafasamt er að nokkur sjónvarpsáhorfandi trúi að mönnum sé alvara með slíkum yfirlýsingum þótt þær séu gefnar á Bessastöðum.

Þótt ekki séu brýn pólitísk úrlausnarefni sem bíða nýrrar ríkisstjórnar ber að ganga skipulega til stjórnarmyndunar á sem skemmstum tíma.