5.11.2016 16:15

Laugardagur 05. 11. 16

Bretar búa ekki við neina stjórnarskrá. Beri að fordæmalaus mál vita stjórnvöld ekki hvernig taka ber á þeim með vísan til stjórnarskrár. Hún hefur aldrei verið sett í Bretlandi. Þar eru hins vegar venjur og hefðir hafðar í heiðri. Þær duga þó skammt nú þegar tekist er á við úrsögn Breta úr ESB eftir að hún var samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu 23. júní 2016. Um slíkt er engin fordæmi að finna.

ESB er reist á skráðum reglum og sáttmálum sem ber að virða til að halda fjölþjóðlegu samstarfi innan sambandsins innan ákveðinna marka. Fastheldni við þessar reglur og andstaða við frávik eða undanþágur frá þeim hefur aukist eftir því sem ESB-ríkjunum hefur fjölgað. Aðlögun að reglunum á umsóknarferli ríkja er fastmótað skilyrði þótt umsóknarsinnar hér á landi hafi neitað að horfast í augu við þá staðreynd eins og svo margt annað komi stefna þeirra til umræðu.

ESB vísar til 50. gr. í sáttmála sínum varðandi úrsögn Breta. Þeir verði að fara tveimur árum eftir að þeir tilkynna úrsögn sína formlega. Theresa May forsætisráðherra hefur sagst ætla að tilkynna þetta í mars 2017. Hún hélt því fram að ríkisstjórnin gæti tekið ákvörðun um að virkja 50. gr. ESB-sáttmálans án þess að bera ákvörðunina undir breska þingið.

Dómstóll, High Court, skipaður þremur dómurum, hafnaði skoðun forsætisráðherrans nú í vikunni. Það ber að leggja ákvörðun um að virkja 50. gr. fram á þingi til afgreiðslu. Ríkisstjórnin hefur áfrýjað málinu til hæstaréttar.

Í raun er umhugsunarvert að ríkisstjórnin skyldi taka þann pól í hæðina að ekki þyrfti formlegt samþykki þingsins. Þá er ekki síður merkilegt að sjá hve hart margir stjórnmálamenn sækja að dómurunum fyrir að hafa komist að þessari niðurstöðu, svo hart að breska dómarafélagið krafðist þess að dómsmálaráðherrann tæki upp hanskann fyrir dómara, þeir ættu ekki að standa á berangri og óvarðir þegar vegið væri að þeim á þennan hátt. Hvatti dómsmálaráherrann til að menn virtu sjálfstæði dómara.

Ein skýring á því hvers vegna May vill ekki leggja úrsögnina fyrir þingið er sú að hún vilji ekki sýna samningsmarkmið sín. Sumir segja að hún hafi einfaldlega ekki mótað nein slík markmið. Þetta minnir á stöðu ESB-umsóknarinnar hér á sínum tíma. Þá höfðu ESB-aðildarsinnar mörg ár til að kynna þjóðinni samningsmarkmið sín. Þeir gerðu það þó aldrei sem stuðlaði ásamt öðru að íslenska ESB-klúðrinu.