8.11.2016 11:00

Þriðjudagur 08. 11. 16

Í dag ganga Bandaríkjamenn að kjörborðinu og velja sér forseta, þingmenn og fleiri embættismenn. Sérkennilegt er að víða hefur kosningalögum verið breytt á þann veg að fólk getur kosið fyrir kjördag og er talið að 43 milljónir manna af tæplega 130 milljónum sem líklegt er að kjósi hafi þegar greitt atkvæði. Þetta er umdeilt nýmæli. The New York Times telur 85% líkur á að Hillary Clinton sigri Donald Trump. Vonandi verða úrslitin á þann veg. Þá telur blaðið 55% líkur á að demókratar fái meirihluta í öldungadeild Bandaríkjaþings en það má ekki síst rekja til vandræða repúblíkana vegna framgöngu Trumps.

Orðbragð Trumps og persónulegar svívirðingar hans í garð andstæðinga sinna innan eigin flokks og utan munu ef til vill færa ræður og skrif um stjórnmál á lægra stig en ella víðar en í Bandaríkjunum.

Hér hafa svívirðingar í garð pólitískra andstæðinga lengi tíðkast. Eitt er orðbragðið annað tilraunir til að klína á menn eða flokka einhverju sem þeir eiga ekki skilið.

Í Fréttablaðið í dag skrifar Jón Sigurður Eyjólfsson, fastur bakþankahöfundur blaðsins, enn eina ófræingargreinina um frjálshyggjuna og Hannes Hólmstein Gissurarson. Skrif af þessu tagi eru orðin svo þreytt og slitin að einkennilegt er að þau skuli enn stunduð árið 2016. Jón Sigurður segir:

„Mér er minnisstæð grein Hannesar Hólmsteins frá liðnu sumri þar sem hann sagði eitthvað á þá leið að þeim sem gekk vel keyptu kvóta af hinum sem gekk ekki jafn vel.

En það er ekki þannig að jafnt sé gefið í upphafi og síðan vinni þeir duglegu og hæfileikaríku. Skattaskjólin, eignarhaldsfélögin, stjórnmálin, einkavinavæðingin, opinberar einkaframkvæmdir og innmúraður valdapíramíti snúast á sveif með einum meðan andstreymi óréttlætisins ríður húsum annarra í Efra Breiðholti og víðar. Þetta vita allir… sem vilja.

Samt sem áður eiga flokkar sem flytja fagnaðarerindi frjálshyggjunnar alltaf sitt fasta fylgi. Skiptir þá engu hversu mikinn auð og andlegt þrek frjálshyggjubröltið hefur kostað almenning. Það sér ekki á óbilandi trú þessa fólks á úrsérgenginni lyginni.“

Þetta eru kveinstafir vegna kosningaúrslitanna hér 29. október. Þarna er hugtakið frjálshyggja greinilega notað til að lýsa öllu neikvæðu sem höfundurinn sér í stjórnmálum. Einkennilegt er að hann kjósi aðeins að horfa til hægri. Hann forðast að líta til vinstri og greina til dæmis ástandið í Venezúela. Þar er stjórnað í anda þessara skrifa hans.