9.11.2016 16:30

Miðvikudagur 09. 11. 16

 

Í dag ræddi ég við Ásdísi Höllu Bragadóttur í þætti mín á ÍNN í tilefni útkomu bókar hennar Tvísögu sem hefur vakið verulega athygli og selst vel. Áður en ég sneri mér að bókinni ræddi ég kosningaúrslitin í Bandaríkin og kom ekki að tómum kofanum. Viðtalið verður frumsýnt klukkan 20.00 í kvöld.

Mikil tíðindi urðu í Bandaríkjunum í gær þegar Donald Trump var kjörinn 45. forseti þjóðarinnar. Hann kom enn einu sinni á óvart. Enginn trúði því að hann mundi sigra í forkosningu repúblíkana, auðmaður frá Manhattan, sem aldrei hafði gegnt opinberu embætti. Hann sigraði engu að síður og var síðan tilnefndur á flokksþingi sem þótti frekar illa heppnað.

Talið var að rauði dregillinn hefði verið lagður fyrir Hillary Clinton í Hvíta húsið. Demókratar mundu mala repúblíkana sem yrðu langan tíma að sleikja sárin og raða saman flokksbrotunum. Nú eiga repúblíkanar forsetann, 32 ríkisstjóra af 50, meirihluta í báðum deildum Bandaríkjaþings og ráða hverjir taka sæti í hæstarétti.

Allt gerðist þetta þrátt fyrir að fjölmiðlamenn og skoðanakannanir segðu að Hillary mundu sigra. Á kjördag sagði The New York Times að 85% líkur væru á sigri Hillary og 55% líkur á að demókratar fengju meirihluta í öldungadeild Bandaríkjaþings. Allt fór á annan veg. Demókrataflokkurinn er í molum. Barack Obama sem ætlaði að sigla sem sigurvegari úr Hvíta húsinu fer þaðan undir ásökunum um að störf hans og stefna hafi lagt grunn að tapi Hillary.

Clinton-fjölskyldan hefur sett ráðandi svip sinn á bandarísk stjórnmál í tæp 30 ár. Hún hverfur nú af sviðinu. Bush-fjölskyldan hefur verið ráðandi afl í Washington og víðar í Bandaríkjunum lengur en Clinton-fjölskyldan. Trump sigraði Jeb Bush í forskosningunni og talaði niður til hans. Bush-ættfaðarinn sagðist ekki ætla að kjósa forsetaframbjóðanda repúblíkana að þessu sinni. Í báðum flokkum hafa þessar kosningar ýtt gamalgrónum valdakjörnum, Clinton-fjölskyldunni og Bush-fjölskyldunni til hliðar.

Donald Trump höfðaði til andúðar á valdakerfinu í Washington. Hann gat í raun ekki valið sér betri andstæðing til að sanna kenningu sína um dauðahald í völd en Hillary Clinton. Trump fann tón sem hafði hljómgrunn hjá kjósendum.  

Of snemmt er að segja hver verða áhrifin af Trump-byltingunni. Til hennar verður litið þegar rætt verður um pólitíska stórviðburði eins og hrun Sovétríkjanna og Berlínarmúrsins eða ákvörðun Breta um að segja sig úr ESB.