11.11.2016 18:45

Föstudagur 11. 11. 16

 

Í dag sendi forsetaskrifstofan frá sér eftirfarandi tilkynningu:

„Forseti Íslands Guðni Th. Jóhannesson átti í dag, föstudaginn 11. nóvember 2016, fund með Bjarna Benediktssyni, formanni Sjálfstæðisflokksins, um gang viðræðna hans við forystumenn annarra stjórnmálaflokka. Formaður Sjálfstæðisflokksins tjáði forseta að ákveðið hefði verið að hefja formlegar viðræður fulltrúa Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar um myndun ríkisstjórnar sem nyti stuðnings meirihluta á Alþingi.“

Þarna er lýst þáttaskilum í viðræðum um nýja stjórn rétt tæpum tveimur dögum eftir kosningarnar. Leiði þessar viðræður til myndunar ríkisstjórnar kemur til sögunnar stjórn sem yrði sannkölluð mið-hægristjórn.

Augljóst er að þetta skref hefði ekki verið stigið án þess að í ljós hafi komið í viðræðum forystumanna flokkanna undanfarna daga að ekki yrði strax siglt upp á sker. Flokksformennirnir hafa reifað samningsmarkmið sín og nú er að sjá hvort þeim tekst að stilla saman strengi.

Í fréttum ríkisútvarpsins var haft eftir Bjarna Benediktssyni að ESB-mál hefðu skapað vanda undanfarna sólarhringa. Það er með nokkrum ólíkindum hafi því verið haldið fram af formönnum Bjartrar framtíðar og Viðreisnar að nú strax eða á næstu árum sé nauðsynlegt að taka ákvarðanir í ESB-málum.

Í stjórnarmyndunarviðræðum eiga menn ekki að takast á við einhverja drauga úr fortíðinni. Þar á að ræða mál líðandi stundar og framtíðar, meta stöðu þjóðarinnar frjálsir af fánýtum fortíðardeilum. Alþingi hafnaði þjóðaratkvæðagreiðslu um ESB-umsókn árið 2009, aðildarviðræður sigldu í strand 2011, þeim var hætt í janúar 2013. ESB-flokkar urðu undir í kosningum 2013, ESB-viðræðum var slitið á síðasta kjörtímabili, ESB-flokkurinn þurrkaðist að mestu út 2016. ESB-málið var ekki kosningamál 2016, enginn prédikaði aðild. Að ESB-aðildarmál valdi vandræðum við stjórnarmyndun í nóvember 2016 er með ólíkindum.

Bretar, helsta viðskiptaþjóð okkar, er á leið úr ESB. Á þessari stundu veit enginn hvernig Bretum tekst að semja við ESB um úrsögn sína. Brýnasta verkefni íslenskra stjórnvalda nú gagnvart samstarfi við ESB-ríki er að tryggja farsælan samning við Breta samhliða EES-samningnum eða stuðla að aðild Breta að EES-samstarfinu. Þegar vitað verður um niðurstöðu ESB og Breta er tímabært fyrir okkur að huga enn á ný að samskiptunum við ESB.