10.11.2016 17:15

Fimmtudagur 10. 11. 16

Samtal mitt á ÍNN við Ásdísi Höllu Bragadóttur í gær er komið á netið eins og sjá má hér.

Ásdís Halla hefur skrifað bókina Tvísögu sem hefur vakið mikla athygli. Þetta saga móður hennar sem Ásdís Halla skráði við leitina að föður sínum. Ég spurði hvers vegna hún hefði ákveðið að gefa út svo nærgöngula persónu- og fjölskyldusögu. Svarið heyrum við í þættinum. 

Við ræðum einnig úrslit forsetakosninganna í Bandaríkjunum.

Æðsti stjórnsýsludómstóll Frakklands, Conseil d'Etat, úrskurðaði miðvikudaginn 9. nóvember að það færi ekki í bága við lög frá 1905 um skil milli ríkis og kirkju að setja upp jötur með Maríu, Jósep, barninu Jesú og vitringunum þremur auk búsmala, hirðingja og Betlehem-stjörnunnar í opinberum byggingum eins og ráðhúsum í Frakklandi.

Jöturnar sem skreytt hafa ráðhús og torg um jól og áramót hafa farið fyrir brjóstið á frönskum samtökum sem líkjast Siðmennt eða Vantrú hér á landi. Þessi samtök skutu ákvörðunum bæjarstjórna tveggja bæja um að hafa jötur í ráðhúsum sínum til stjórnsýsludómara. Þau sögðu að ráðhús væru ekki venjulegir staðir fyrir jötur sem sýndu fæðingu Jesús.

Nú hefur æðsti stjórnsýsludómstóll Frakka loks bundið enda á þessar deilur sem magnast hafa ár frá ári. Hann segir að leyfa megi jöturnar í opinberum byggingum enda séu þær þar tímabundið, ekki sé neitt trúboð haft í frammi og umbúnaðurinn sé menningarlegur, listrænn og hátíðlegur. Þá er einnig heimilað að hafa jötur til sýnis utan dyra á götum og torgum.

Mikilvægt er fyrir Frakka að fá úr þessu skorið nú í þann mund sem unnið er að uppsetningu jólamarkaða sem verða sífellt vinsælli í Frakklandi eins og annars staðar í Evrópu. Setja þeir mikinn svip á borgir og bæi. Í könnun sem franska blaðið Le Parisien gerði á árinu 2014 kom í ljós að 86% af 12.000 svarendum kusu að jötur yrðu settar upp til hátíðarbrigða um jólin.

Afhelgun eða laïcité eins og sagt er á frönsku er talin meðal hornsteina franska lýðveldisins og fransks stjórnarfars. Hún veldur oft deilum meðal Frakka ekki síst þegar rætt er um menntamál og skólastarf. Þá hafa stjórnmáladeilur um inntak aðskilnaðarins magnast vegna fjölgunar múslima í Frakklandi og ágreinings um það meðal annars hvort slæður múslimakvenna séu trúartákn eða ekki.