17.11.2016 11:00

Fimmtudagur 17. 11. 16

Það er einkennilegt að íslenskir fjölmiðlamenn hafi ekki sameinast um eitt viðunandi starfsheiti á æðsta starfsmanni Hvíta hússins, chief of staff, við hlið forsetans. Á norsku tala menn um stabssjef, á dönsku og þýsku stabschef en á frönsku kalla þeir hann secrétaire general.

Norðmenn, Danir og Þjóðverjar nota orð sem tengist hermennsku og allir skilja sem þekkja til hennar og orðnotkunar þar, herráðsforingi. Frakkarnir nota orð íslenskuð eru með orðunum framkvæmdastjóri (NATO) eða aðalritari (SÞ). Orðin starfsmannastjóri eða skrifstofustjóri sem gjarnan eru notuð hér í fréttum gera minna úr áhrifavaldi þessa embættismanns en réttmætt er. Þá hefur fréttastofa ríkisútvarpsins kallað hann „yfirmann forsetaembættisins“ sem gengur ekki.

Eiður Svannberg Guðnason heldur úti bloggi þar sem hann ræðir málfar í fjölmiðlum. Þar segir í gær, miðvikudaginn 16. nóvember:

„Molavin skrifaði (14.11.2016) um meinloku, sem aftur og aftur kemur upp í fréttum, og oftar en einu sinni hefur verið fjallað um í Molum. Molavin segir: ,, Enn vefst það fyrir fréttastofu Bylgjunnar (í hádegisfréttum 14.11.) hvert sé hlutverk æðsta embættismanns bandaríska forsætisembættisins, Chief of Staff. Bylgjan kallar hann starfsmannastjóra og segir hann annast ráðningar starfsfólks embættisins. Það sem nú er í tízku að kalla mannauðsstjóra. Þegar CNN birti þessa frétt fyrst í gærkvöld var vel útskýrt að þetta jafngildi einna helzt forsætisráðherraembætti. Heitið er komið úr hernum, yfirmaður herráðs, og Chief of Staff er milliliður forsetans við alla ráðherra, velur jafnvel í ráðherraembætti í samráði við forsetann og er hans hægri hönd. Við forsetaembættið starfar svo sérstök deild starfsmannamála og þar er yfirmaður sem mætti kalla starfsmannastjóra.“ Áður hefur verið vikið að þessu í Molum, sem fyrr segir, en skrifari [Eiður] þakkar Molavin þessar ágætu útskýringar.- Í seinni fréttum Ríkissjónvarps þennan sama dag var enn og aftur talað um starfsmannastjóra Hvíta hússins. Út í hött. Þetta er ekki flókið mál. Chief of staff í Hvíta húsinu er ekki starfsmannastjóri.“

Hvað á að kalla þennan embættismann á íslensku? Við höfum ekki skilning á inntaki tignarheita í hernum. Þá er að velja borgaralegu lausnina eins og Frakkar gera. Hvort er skynsamlegra að tala um framkvæmdastjóra, aðalritara eða forstöðumann forsetaembættisins og þar með Hvíta hússins?

Þá verður að gera mun á þessum embættismanni og því starfi sem Stephen Bannon á að gegna hjá Trump og Frakkar lýsa sem conseiller stratégique eða strategískum ráðgjafa. Karl Rove gegndi þessu starfi hjá George W. Bush á sínum tíma.