11.2.2009 20:07

Miðvikudagur, 11. 02. 09.

Utanríkismálanefnd kom saman klukkan 10.15 og var rætt um Stoltenberg-skýrsluna um samvinnu Norðurlanda í öryggismálum. Undir lok fundarins bað ég utanríkisráðuneytið um skýrslu um áhrif blaðaummæla vegna viðtals við Ólaf Ragnar Grímsson í þýskri útgáfu Financial Times og einnig vildi ég, að nefndin yrði upplýst um, hvað ráðuneytið hefði gert til að lægja öldur í Þýskalandi vegna gagnrýni á Ísland í tilefni af því, sem sagði í blaðinu og kennt var við Ólaf Ragnar.

Smugan.is spurði vegna dagbókarfærslu hér í gær um aðhald að forseta Íslands af hálfu forsætis- og/eða utanríkisráðherra vegna samskipta hans við erlenda fjölmiðla. Ég sagði:

„Ég tel að þeir eigi að birta yfirlýsingu um hlutverk forseta og kynna Þjóðverjum. Auk þess eigi upplýsingafulltrúi utanríkisráðuneytisins að stjórna aðgangi erlendra fjölmiðlamanna að forsetanum og sitja fundi forseta með slíkum mönnum.“

Í hádeginu flutti ég kynningarerindi um qi gong fyrir starfsmenn menntamálaráðuneytisins.

Eins og venjulega var Sigurður Líndal fús til að gefa tafarlausa yfirlýsingu um lögfræðilegt álitaefni og draga frekar taum Ólafs Ragnars Grímssonar.

Hinn 12. nóvember 2008 birti ég þennan texta hér í dagbókinni:

„Lagadeild Háskólans í Reykjavík efndi í dag til umræðna um lögfræðileg álitamál á umbrotatímum .....

Þórdís Ingadóttir dósent ræddi um gildi yfirlýsinga ráðamanna að þjóðarétti. Þegar efni er hennar er skoðað á vefsíðunni, sést, að ríki geta gengist undir þjóðréttarlegar skuldbindingar með einhliða yfirlýsingu. Vegna eðlis starfa þeirra eru eftirfarandi ráðamenn sjálfkrafa taldir hafa umboð til að skuldbinda ríki: þjóðhöfðingi, forsætisráðherra og utanríkisráðherra.

Þórdís fór síðan yfir álitamál um það, hvort um væri að ræða undantekningu frá þessari meginreglu eða hvort unnt væri fyrir þjóðir að skorast undan að vera bundnar af slíkum yfirlýsingum. Nefndi hún dæmi til að skýra málið. Þar kemur meðal annars fram, að Malí hafi haldið því fram, að yfirlýsing þjóðhöfðingja á blaðamannafundi hefði einungis verið „a witticism of the kind regularly uttered at press conferences“.“

Varla telur Sigurður Líndal að þetta eigi við um það, sem haft er eftir Ólafi Ragnari í þýskum fjölmiðlum? Líklega ekki heldur um það, sem segir í bandaríska tímaritinu fyrir glæsi- og gleðifólkið.