Sunnudagur, 22. 02. 09.
Morgunblaðið birtir í dag viðtal við Heimi Hannesson um hlut hans og vina hans innan ATA, Atlantic Treaty Association, að lausn landhelgisdeilnanna vegna 50 mílnanna og 200 mílnanna á áttunda áratugnum. Við Heimir sátum saman í stjórn Samtaka um vestræna samvinnu (SVS) á þessum árum en SVS á aðild að ATA. Ég man eftir frásögnum Heimis af þessum afskiptum hans. Á hinn bóginn dreg ég í efa, að þau hafi skipt sköpum um lausn deilnanna, þótt þau hafi vafalaust skipt einhverju máli um framvinduna.
Í fréttum hljóðvarps ríkisins var rætt um þá skoðun Eiríks Tómassonar, lagaprófessors, að hér væri óvenjulegt ráðherraræði og embættismenn óttuðust ráðherra fyrir utan veika stöðu alþingis. Þetta stafaði af því, að stjórnarskráin væri úrelt. Þá hefðu Danir breytt eigin stjónarskrá sem væri samstofna okkar.
Þetta er skrýtin rulla. Danir hafa ekki breytt stjórnarskrá sinni síðan 1953, ef ég veit rétt. Danska stjórnkerfið er að ýmsu leyti meira sniðið að einstökum ráðherrum og pólitískum duttlungum við stjórnarmyndun en stjórnarráð Íslands.
Ég skrifaði í dag pistil hér á síðuna um ferð mína út á hliðarlínu stjórnmálanna.