Laugardagur, 07. 02. 09.
Sturla Böðvarsson skýrði frá því í dag, að hann ætlaði ekki að gefa kost á sér í komandi þingkosningum og sama er að segja um Herdísi Þórðardóttur en þau eru bæði þingmenn sjálfstæðismanna í Norðvesturkjördæmi. Þau bætast því í hóp okkar Geirs H. Haarde en hvorugur okkar ætlar oftar í framboð.
Sturla vék að stjórnarmynduninni og forsetakjöri á alþingi, þegar hann kynnti ákvörðun sína og er þannig sagt frá á mbl.is:
„Það var ekki fyrr en ég stóð frammi fyrir mótframboði um embætti forseta Alþingis sem ég beið lægri hlut í kosningum. Þar var kosningastjóri í raun og veru enginn annar en bóndinn á Bessastöðum,“ segir Sturla.
Hann sagði kosninguna hafa af hálfu sjálfstæðismanna verið mælingu á heilindum og drengskap framsóknarmanna og afstöðu þeirra sem höfðu mært hann og störf hans.
„Bessastaðabandalagið, eins og ég kalla stuðningsmenn minnihlutastjórnarinnar, stóðst ekki prófið.“ Sturla sakaði forseta Íslands, Ólaf Ragnar Grímsson, um afskipti af stjórnarmynduninni og sagði þau dæmalaus.
„Forsetinn hikaði ekki við að hafna stjórn allra flokka, skáka Sjálfstæðisflokknum burt og setja til valda Vinstri græna sem höfðu bæði leynt og ljóst staðið fyrir grjótkastinu og innrásinni í Alþingishúsið og í raun staðið fyrir valdatöku þegar Samfylkingin missti kjarkinn eftir árásina á Alþingishúsið og aðförina að fundi Samfylkingarinnar í Leikhúskjallaranum,“ sagði Sturla og bætti því við að það mætti með sanni segja að minnihlutastjórn Jóhönnu hefði komist til valda í skjóli ofbeldis.
„Það var sláandi fyrir okkur sem vorum í þinghúsinu þegar sem mest gekk á að verða þess áskynja þegar ofbeldisfólkið sem réðst á Alþingishúsið fór eftir að Vinstri grænir fengu sitt fram og höfðu sest í ráðherrastóla.““
Þessi lýsing Sturlu kemur heim og saman við gagnrýni mína á þá ákvörðun Ólafs Ragnars að hafa þingræðisregluna að engu og veita strax umboð til að mynda minnihlutastjórn..
Samkvæmt visir.is gaf Geir H. Haarde til kynna á fundi sjálfstæðismanna í Reykjavík í morgun, að aðdragandi að myndun ríkisstjórnarinnar hefði verið lengri og annar en af hefur verið látið og hlutur Ólafs Ragnars væri ekki sem sýndist.
Hið einkennilega er, að enginn fjölmiðll, svo að ekki sé minnst á stjórnmálafræðinga eða lögfræðinga hefur tekið sér fyrir hendur, að grafast fyrir um aðdraganda stjórnarmyndunarinnar eða setja hana inn í þær stjórnlagahefðir, sem hér hafa ríkt.
Hið sama á við um stjórnskipunarmál og svo margt annað á líðandi stundu, að menn einblína á eitthvað, sem ekki er, í stað þess að horfast í augu við staðreyndir líðandi stundar. Stjórnlagaþing eða einhver lokahnykkur á endurskoðun stjórnarskrár virka eins og jafnmikill flótti frá veruleikanum og talið um, að allt bjargist bara sé tekin ákvörðun um aðild að Evrópusambandinu.
Dapurlegt er að fylgjast með vandræðagangi Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra gagnvart seðlabankastjórunum. Ingimundur Friðriksson tilkynnti Jóhönnu í gær, að hann ætlaði að segja af sér embætti. Eiríkur Guðnason sagðist ekki ætla að gera það og Davíð Oddsson hefur ekki enn svarað Jóhönnu. Eðlilegt er, að hún sé spurð, hvað hún ætli að gera næst. Ætlar hún að áminna þá Eirík og Davíð fyrir að óhlýðnast sér? Þá öðlast þeir rétt til andmæla - en áminning er lögbundið upphaf afsagnar.
Þessi fyrsta vika hefur einkennst af hreinsunum: Sturlu Böðvarssyni var vikið ómaklega forsetastóli á alþingi með lögmætri aðferð. Bolli Þ. Bollason, ráðuneytisstjóri í forsætisráðuneytinu, sinnir nú „sérverkefnum“ fram yfir kosningar og Baldur Guðlaugsson, ráðuneytisstjóri í fjármálaráðuneytinu, er í fríi fram yfir kosningar. Báðum er þeim vikið til hliðar breytinganna vegna. Morgunblaðið telur þetta eðlilega stjórnarhætti í leiðara sínum, enda hefur sá háttur verið tekinn upp við stjórn þess, að fólki er sagt upp og hverfur fyrirvaralaust úr störfum.